Dómsúrskurður í máli Lífsverks gegn VÍS

29.4.2016

Þann 25. apríl síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Lífsverks lífeyrissjóðs („Lífsverk“) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. („VÍS“) og fyrrum stjórnendum sjóðsins. Mál þetta höfðaði Lífsverk á hendur framangreindum aðilum vegna fjárfestinga sem stjórnendurnir tóku ákvarðanir um  á árinu 2008. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var Lífsverki í vil og voru stefndu dæmdir til að greiða Lífsverki skaðabætur.

Málið er að rekja til tveggja fjárfestinga í svonefndum lánshæfistengdum skuldabréfum, sem stjórnendur sjóðsins tóku ákvörðun um í mars og september 2008, en tjón sjóðsins vegna þessara fjárfestinga nam þá samtals u.þ.b. 1.700 milljónum króna.

Í málatilbúnaði Lífsverks var á því byggt að umræddar fjárfestingar væru afleiðuviðskipti sem stönguðust á við þær fjárfestingaheimildir sem lífeyrissjóðir hefðu samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Stjórn Lífsverk tilkynnti VÍS um tjónið árið 2012 og fór fram á hámarksbætur í samræmi við gildandi stjórnendatryggingu milli aðilana tveggja. VÍS hafnaði bótaskyldu og í kjölfarið mat stjórn Lífsverks málið svo að hagsmuna sjóðsfélaga væri best gætt með því að láta reyna á bótaskyldu VÍS fyrir dómstólum. Málið var þingfest haustið 2014 og þann 25. apríl 2016 féll dómur héraðsdóms á þann veg að fallist var að stærstum hluta til á kröfu Lífsverks og VÍS dæmt til að greiða sjóðnum 852 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta sem í dag nema rúmlega 750 milljónum króna.  Samtals var VÍS því gert að greiða Lífsverki u.þ.b. 1.606 milljónir króna. Auk framangreinds voru fyrrum stjórnendur sjóðsins sameiginlega dæmdir til að greiða Lífsverki samtals 36 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta.

Samkvæmt tilkynningu frá VÍS til Kauphallar Íslands hefur VÍS ákveðið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Verði dómurinn staðfestur þar er ljóst að hann mun hafa jákvæð áhrif á stöðu Lífsverks. 

Hægt er að nálgast dóminn í heild sinni á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur dómur

Lífsverk er lífeyrissjóður háskólamenntaðra.  Sjóðsfélagar njóta mjög hagstæðs réttindaávinnings fyrir greidd iðgjöld auk þess sem þeim standa til boða hagstæð sjóðfélagalán.