Stefna Lífsverks um ábyrgar fjárfestingar

Samþykkt á stjórnarfundi í maí 2023

Stefna Lífsverks lífeyrissjóðs um ábyrgar fjárfestingar skilgreinir sjálfbærniviðmið í fjárfestingum og áhættustýringu sjóðsins, m.a. í samræmi við 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Nánar

Efnisyfirlit

1. Tilgangur
2. Samstarf, viðmið og upplýsingagjöf
3. Markmið
3.1. Umhverfismál - Gagnsæi um kolefnisspor
3.2. Félagslegir þættir – Velferð og öryggi starfsfólks
3.3. Stjórnarhættir – Gagnsæi, ábyrgð og upplýsingagjöf
4. Innleiðing og aðferðafræði
5. Almenn stjórn og ábyrgð

 

Tilgangur

Stefna Lífsverks lífeyrissjóðs um ábyrgar fjárfestingar skilgreinir sjálfbærniviðmið sjóðsins og lýsir hvernig sjóðurinn tekur tillit til áhættu tengdrar sjálfbærni í fjárfestingum og áhættustýringu sjóðsins. Það er mat stjórnar að fjárhagsleg og ábyrg markmið fari saman og stuðli í sameiningu að bættum hag sjóðfélaga og gildir stefnan um fyrirtæki og aðra útgefendur fjármálagerninga sem samtryggingardeild og séreignardeildir sjóðsins fjárfesta í.

Við mat á sjálfbærni og áhættu tengdri sjálfbærni horfir sjóðurinn til viðmiða um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS viðmið) og koma þau á margþættan hátt inn í ákvarðanatöku og áhættumat sjóðsins. Áhætta tengd sjálfbærni er atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar. Áhætta tengd sjálfbærni og viðmið um sjálfbærniþætti munu í vaxandi mæli hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði vegna beinna umhverfisáhrifa og breytinga á regluverki. Það mun hafa margvísleg áhrif, bæði jákvæð og neikvæð, á tækifæri og áhættur vegna fjárfestinga sjóðsins.

Lífsverk tekur tillit til áhættu tengdrar sjálfbærni við mat á fyrirtækjum sem fjárfest er í. Á meðal þeirra ráðstafana sem sjóðurinn grípur til í því skyni að minnka sjálfbærniáhættu er að fylgja meginreglum PRI við ákvarðanaferli við fjárfestingar og leggja áherslu á tiltekin sjálfbærni viðmið. Eins dregur Lífsverk úr sjálfbærniáhættu með virku eignarhaldi. Þannig vill sjóðurinn stuðla að því að fyrirtæki séu til fyrirmyndar í sjálfbærnimálum með nýtingu atkvæðisréttar annars vegar og beitingu formlegs eða óformlegs þrýstings á fyrirtæki og samstarfsaðila hins vegar.

Lagakröfur til lífeyrissjóða og annarra eignastýringaraðila hafa aukist mjög síðustu ár. Stefna Lífsverks um ábyrgar fjárfestingar er sett með þetta í huga og uppfyllir hún meðal annars kröfur um upplýsingaskyldu skv. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 og setningu siðferðislegra viðmiða í fjárfestingum skv. 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Til að að skerpa á mikilvægi eftirfylgni með sjálfbærniviðmiðum í fjárfestingum sjóðsins, þá hefur hluthafastefna sjóðsins verið sameinuð við stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Fyrirsjáanlegt er að umgjörð í kringum sjálfbærni í fjárfestingum haldi áfram að þróast og má gera ráð fyrir að stefna sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar muni gera slíkt hið sama á næstu árum.

Samstarf, viðmið og upplýsingagjöf

Lífsverk starfar á alþjóðlegum mörkuðum og mótun reglna, staðla og viðmiða fer að nokkru leyti fram á alþjóðlegum samstarfsvettvangi. Lífsverk leitast við að leggja sitt af mörkum til þróunar á þessu sviði með því að taka þátt í viðeigandi samstarfi og samtökum, vinna með öðrum fjárfestum og fylgjast með þróun nýrra viðeigandi viðmiða.

Lífsverk er aðili að samkomulagi við PRI (e. Principles for Responsible Investments) og hefur þar með samþykkt að fylgja sex meginreglum samtakanna:

 • Lífsverk tekur mið af sjálfbærniviðmiðum við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvarðanatöku.
 • Sjóðurinn mun vera virkur eigandi sem tekur tillit til sjálfbærniviðmiða bæði í stefnu og verki.
 • Kallað verður eftir upplýsingum um frammistöðu út frá sjálfbærniviðmiðum frá fyrirtækjum sem fjárfest er í.
 • Sjóðurinn mun beita sér fyrir viðurkenningu á og innleiðingu meginreglna PRI innan fjármálageirans.
 • Sjóðurinn mun vinna að því að auka áhrif og árangur af innleiðingu meginreglnanna.
 • Sjóðurinn mun upplýsa um starfsemi sjóðsins og framgang við innleiðingu meginreglnanna.

Þessar meginreglur leggja grunn að aðferðafræði Lífsverks við að samþætta sjálfbærniviðmið í ákvarðanaferli við fjárfestingar en sjóðurinn mun samhliða því horfa til nýrra ESB reglugerða og tilskipana.

Aukinheldur þá hefur Lífsverk ásamt 12 öðrum íslenskum lífeyrissjóðum skuldbundið sig á vettvangi Climate Investment Coalition (CIC) til að fjárfesta 580 ma.kr. í græn verkefni fyrir árið 2030 sem mun styðja við markmið Parísarsamkomulagsins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Sjóðurinn er á meðal stofnaðila IcelandSIF, íslenskra samtaka með þann tilgang að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræðu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Þá er Lífsverk aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni frá árinu 2020.

Gagnsæis skal gætt gagnvart sjóðfélögum og öðrum hagaðilum um ábyrgar fjárfestingar Lífsverks. Lífsverk mun því gefa árlega út skýrslu um ábyrgar fjárfestingar þar sem fjallað er um árangur í starfsemi sjóðsins, framgang á innleiðingu þessarar stefnu og árangur tengdan henni. Skýrslan verður birt á heimasíðu Lífsverks. Lífsverk tekur einnig þátt í opinberum umræðum um viðeigandi málefni og veitir upplýsingar um starf sitt á heimasíðu sjóðsins.

Lífsverk hlustar á skoðanir sjóðfélaga um ábyrgar fjárfestingar og hvetur þá til að taka þátt í að bæta sjóðinn þeirra.

Markmið

Lífsverk ætlar sér að vera virkur þátttakandi í eflingu ábyrgra fjárfestinga með áherslu á sjálfbærniviðmið. Lífsverk leggur sérstaka áherslu á tiltekin sjálfbærniviðmið út frá mikilvægi þeirra fyrir sjóðinn og því hvar sjóðurinn getur haft mest áhrif.

Mikilvægisgreining var framkvæmd á meðal helstu hagaðila sjóðsins til að kanna hvaða sjálfbærniviðmið hagaðilarnir telja mikilvægust og vilja að horft sé til við fjárfestingar. Á grundvelli þeirrar greiningar hefur sjóðurinn ákveðið að leggja áherslu á eftirfarandi viðmið:

 • Umhverfismál: Gagnsæi um kolefnisspor.
 • Félagslegir þættir: Velferð og öryggi starfsfólks. 
 • Stjórnarhættir: Gagnsæi, ábyrgð og upplýsingagjöf.

Sjóðurinn telur mikilvægt að stefna í ábyrgum fjárfestingum byggi á tímasettum og mælanlegum markmiðum sem byggja á raunhæfum áætlunum og áreiðanlegum gögnum. Gögn um mælikvarða ýmissa sjálfbærniviðmiða eru enn mjög mismunandi milli útgefenda fjármálagerninga sem sjóðurinn fjárfestir í. Hins vegar er hröð þróun í vinnslu þessara gagna og hratt vaxandi kröfur eftirlitsaðila um að þessi gögn séu birt.

Umhverfismál - Gagnsæi um kolefnisspor

Lífsverk leggur áherslu á gagnsæi um kolefnisspor eignasafns og vill vinna með fyrirtækjum og samstarfsaðilum við að tryggja gæði gagna og aðferðafræði við útreikninga á kolefnisspori.
Markmið Lífsverks til skemmri tíma eru eftirfarandi:

 • Ná utan um upplýsingar um kolefnislosun í innlendu og erlendu eignasafni á árinu 2023 (umfang 1, 2 og helstu þáttum 3) með það að markmiði að hafa sem áreiðanlegastar upplýsingar um kolefnislosun vegna fjárhagsársins 2023.
 • Horfa til þess að setja mælanleg og tímasett markmið fyrir eignasafn sjóðsins um lækkun kolefnislosunar til langs tíma. Framvinda þess mun byggjast á niðurstöðum og árangri af áreiðanleika upplýsinga um kolefnisspor fyrirtækja sem fjárfest er í.

Með þetta í huga er markmið Lífsverks að fyrirtæki skráð á innlendum hlutabréfamarkaði sem fjárfest er í hafi vegna fjárhagsársins 2023:

 • Birt upplýsingar um kolefnislosun sína út frá umfangi 1, 2 og helstu þáttum 3 (óbein losun í virðiskeðju).
 • Sett sér mælanleg og tímasett markmið um að draga úr kolefnislosun.
 • Tileinki sér bestu framkvæmd viðmiða um kolefnisjöfnun og hlutleysi, t.a.m. þeirri sem kemur fram í Tækniforskrift Staðlaráðs Íslands um kolefnisjöfnun.

Jafnframt mun Lífsverk leitast við að samstarfsaðilar, s.s. innlend og erlend sjóðafyrirtæki séu með sambærileg markmið og upplýsi Lífverk um framvindu slíkra mála, vegna fjárhagsársins 2023.

Langtímamarkið Lífsverks er að lágmarka kolefnisspor eignasafns og mun sjóðurinn leitast við að fjárfesta í verkefnum sem stuðla að kolefnisbindingu, draga úr kolefnislosun og/eða koma í veg fyrir losun. Horft verður til verkefna sem falla undir hringrásarhagkerfi og þeirra sem vernda líffræðilegan fjölbreytileika auk annarra gjaldgengra verkefna undir Flokkunarkerfi ESB.

Félagslegir þættir – Velferð og öryggi starfsfólks

Lífsverk leggur áherslu á að fyrirtæki sem fjárfest er í upplýsi á gagnsæjan hátt um hvernig þau stuðli að velferð starfsfólks s.s. með stefnum og viðbragðsáætlunum í öryggis-, jafnréttis- og félagsmálum og ófjárhagslegri upplýsingagjöf þar að lútandi í ársreikningi. Horft verður til hvernig fyrirtæki vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum, forvörnum og fræðslu til að lækka vinnuslysatíðni, sporna gegn mismunun og koma í veg fyrir einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Sem liður í því, mun Lífsverk árlega:

 • Safna upplýsingum frá fyrirtækjum skráðum á innlendum hlutabréfamarkaði til að kanna hlítni þeirra við ofangreint (ásamt öðrum viðeigandi sjálfbærniviðmiðum).
 • Leitast við að helstu samstarfsaðilar sjóðsins, s.s. innlend og erlend sjóðafyrirtæki, séu með sambærileg markmið út frá ofangreindu (ásamt öðrum viðeigandi sjálfbærniviðmiðum) og upplýsi Lífsverk um framvindu slíkra mála.


Lífsverk mun markvisst vinna með fyrirtækjum og samstarfsaðilum við að tryggja að slíkar upplýsingar séu til staðar.

Stjórnarhættir – Gagnsæi, ábyrgð og upplýsingagjöf

Hluti þess að vera virkur eigandi felst í eftirfylgni á innlendum og erlendum mörkuðum þó áherslur kunni að vera ólíkar milli þessara markaða. Lífsverk vill stuðla að því að íslensk fyrirtæki og erlendir samstarfsaðilar séu til fyrirmyndar varðandi helstu sjálfbærniviðmið, s.s. gagnsæi, ábyrgð og upplýsingagjöf.

Við eftirfylgni á innlendum markaði eru tvær meginleiðir helst færar vegna fyrirtækja sem fjárfest er í. Annars vegar að virkja samskipti og eiga samtal við innlend fyrirtæki um sjálfbærniviðmið og hins vegar nýting atkvæðisréttar.

Lífsverk leggur áherslu á að stjórn og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í:

 • Setji sér skýra sjálfbærnistefnu út frá viðeigandi sjálfbærniviðmiðum, sem taka mið af starfsemi og starfsumhverfi viðkomandi fyrirtækis.
 • Fylgi ákvæðum laga um upplýsingagjöf í stjórnarháttayfirlýsingu, í samræmi við 66. gr. c laga nr. 3/2006 um ársreikninga.
 • Setji sér skriflegar siðareglur, sem taka mið af starfsemi og starfsumhverfi viðkomandi fyrirtækis.
 • Tileinki sér og framfylgi, að svo miklu leyti sem unnt er, reglum NASDAQ, SA og Viðskiptaráðs Íslands um stjórnarhætti fyrirtækja, eða öðrum viðurkenndum leiðbeiningum um sama efni.

Lífsverk stefnir að því að sækja hluthafafundi þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. Lífsverk leitast við að rýna tillögur stjórnar með upplýstum hætti og tekur sjálfstæða afstöðu til þeirra út frá hagsmunum og stefnumörkun sjóðsins hverju sinni. Telji sjóðurinn ástæðu til þá kemur hann sjónarmiðum sínum á framfæri við viðkomandi stjórn fyrir hluthafafund fyrirtækisins, til að gefa stjórn færi á að bregðast við eða rökstyðja tillögur sínar. Sé ekki komið til móts við sjónarmið sjóðsins eða skýringar eru ófullnægjandi þá greiðir sjóðurinn atkvæði til samræmis við það.

Helstu atriði sem sjóðurinn beinir sjónum að á hluthafafundum eru:

 • Stjórnarseta:
  • Lífsverk leitast við að tilnefna fulltrúa í stjórnir fyrirtækja eigi sjóðurinn þess kost í krafti eignarhalds.
  • Gerð er krafa til stjórnarmanna um að menntun þeirra og hæfi samrýmist þeirri ábyrgð sem þeir takast á hendur með stjórnarsetu og að viðkomandi stjórnarmaður hafi tíma til að rækja störf sín af heilindum.
  • Lífsverk leggur áherslu á að stjórnarmenn sem sjóðurinn tilnefnir eða styður opinberlega við kjör í stjórn séu líklegir til að vinna fyrirtækinu heilt til langs tíma og skamms.
  • Lífsverk hefur ekki bein afskipti af stjórnarstörfum viðkomandi einstaklings eftir að hann hefur verið kosinn í stjórn þess fyrirtækis sem sjóðurinn fjárfestir í.
 • Starfskjör stjórnenda:
  • Horft er til stærðar og umfangs rekstrar og launadreifingar innan viðkomandi fyrirtækis við ákvörðun starfskjara stjórnenda og tekið mið af launakjörum á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á.
  • Við ákvörðun launa forstjóra og stjórnarmanna er litið til umfangs og ábyrgðar starfsins, sem fari jafnframt saman við langtímamarkmið fyrirtækisins í þágu hluthafa.
 • Aðrir þættir sem kunna að koma upp hverju sinni.

Eftirfylgni á erlendum mörkuðum er helst fólgin í því að setja þrýsting á erlenda samstarfsaðila varðandi sjálfbærniviðmið, óformlega og formlega. Sem lið í því, leggur Lífsverk áherslu á:

 • Óformlegan þrýsting, m.a. gegnum samtal og fundi þar sem mál tengd sjálfbærniviðmiðum eru rædd.
 • Formlegan þrýsting, m.a. með því að leggja fram spurningalista eða fyrirspurn tengda sjálfbærniviðmiðum.

Framkvæmdastjóri fer með atkvæðarétt sjóðsins á hluthafafundum eða annar sá aðili sem hann veitir umboð til að fara með atkvæði. Framkvæmdastjóri tekur ákvörðun í samráði við eignastýringu um tilnefningu eða stuðning við ákveðna frambjóðendur í stjórnarkjöri. Meðferð Lífsverks á atkvæðisrétti á hluthafafundum fyrirtækja skráðum á innlendum hlutabréfamarkaði skal birt reglulega á vefsvæði sjóðsins.

Innleiðing og aðferðafræði

Lífsverk leggur sig fram við að innleiða stefnu þessa í daglegum fjárfestingarferlum.

Notast verður við viðeigandi greiningartól og aðferðafræði til að halda utan um gögn og frammistöðu fjárfestingarkosta. Nánara verklag er skilgreint í viðeigandi innanhússreglum og ferlum.

Lífsverk leggur áherslu á þátttöku og samræður með áherslu á umbætur í tengslum við stefnu um ábyrgar fjárfestingar.

Lífsverk heldur ekki úti útilokunarlista á einstök fyrirtæki eða geira, en tekur mið af leiðandi eignastýringaraðilum á Norðurlöndum hvað slíkt varðar. Ef vísbendingar eru um að fyrirtæki brjóti gegn stefnu Lífsverks er óskað eftir skýringum frá viðkomandi fyrirtæki og eftir atvikum hafnar viðræður um úrbætur. Útilokun á einstökum fyrirtækjum er einungis nýtt þegar allir aðrir kostir eru taldir ófullnægjandi.

Almenn stjórn og ábyrgð

Stefna sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar er sett af stjórn sjóðsins og endurskoðuð reglulega.
Framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignastýringar bera ábyrgð á að stefnu sjóðsins sé framfylgt. Framkvæmdastjóri sér til þess að starfsfólk Lífsverks sé upplýst um stefnuna og geti tileinkað sér hana við dagleg störf.

Stefnan tekur gildi við undirritun. Hún skal þýdd á ensku og birt á heimasíðu sjóðsins.

Reykjavík, 24. maí 2023.

Stefna Lífsverks um ábyrgar fjárfestingar (pdf)