Útgreiðsla lífeyris og réttindi

Lífsverk býður mismunandi útgreiðsluleiðir eftir því hvernig 12% skylduiðgjaldi er ráðstafað. 

Ævilangur lífeyrir er greiddur úr samtryggingarleið og miðast útgreiðslur við 67 ára aldur. 

Hægt er að sækja um ævilangan lífeyri frá 60 ára aldri gegn skerðingu. Einnig er hægt að fresta útgreiðslum allt til 80 ár aldurs og fá álag á uppsöfnuð réttindi, ( sbr. tafla II í viðauka A með samþykktum ).

Ellilífeyrir greiðist frá upphafi þess mánaðar sem um hann er sótt. Ekki er heimilt að greiða ellilífeyri aftur í tímann með eingreiðslu.

Sjóðfélagar sem hefja útgreiðslur úr sjóðnum og halda samtímis áfram að greiða í sjóðinn eiga rétt á að fara fram á endurútreikning árlega. Slíka beiðni þarf að senda skriflega til sjóðsins.

Umsókn um útgreiðslu þarf að berast sjóðnum fyrir 20. hvers mánaðar til að greiðsla geti borist fyrir þann mánuð. Lífeyrir greiðist út síðasta virka dag mánaðar.
 
Umsókn um útgreiðslu ellilífeyris

Útgreiðslur úr séreignarsjóði

Sá hluti skylduiðgjalds sem rennur í séreignarsjóð er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur. Hægt er að taka út inneignina eða hluta hennar í einni greiðslu eða dreifa greiðslum á fleiri mánuði/ár.

Við örorku er heimilt að taka út úr séreignarsjóði á 7 árum.

Umsókn um útgreiðslu séreignar

Örorkulífeyrisgreiðslur

Sjóðfélagar sem verða fyrir tekjumissi vegna örorku og eru metnir með 40% örorku eða meira geta sótt um örorkulífeyrisgreiðslur úr samtryggingarleið. Umsækjendur þurfa að hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóð í 3 ár af undanfarandi 4 árum til að njóta framreiknings réttinda. 

Örorkulífeyrir er greiddur þar til umsækjandi hefur öðlast vinnufærni á ný. Ef um varanlega örorku er að ræða er örorkulífeyrir greiddur til 67 ára aldurs.

Makalífeyrisgreiðslur

Við fráfall sjóðfélaga myndast réttur maka til greiðslu makalífeyris í a.m.k. 5 ár. Makalífeyrir er 60% af áunnum lífeyrisrétti sjóðfélaga.  Ævilangur makalífeyrisréttur er af réttindum sem sjóðfélagar hafa áunnið sér fram til ársins 2007 með þeim breytingum sem orðið hafa á réttindum frá þeim tíma.  

Sá réttur tekur gildi þegar eftirlifandi maki verður 67 ára og giftist ekki eða fer í  sambúð að nýju eftir andlát sjóðfélaga.

Barnalífeyrisgreiðslur

Sjóðfélagi sem á börn á aldrinum 0-19 ára á rétt á barnalífeyri samhliða örorkulífeyri. Maki sem fær makalífeyri á einnig rétt  á barnalífeyri. 

Barnalífeyrir er 15% af áunnum lífeyrisrétti þó aldrei lægri fjárhæð en fram kemur í gr. 10.4 í samþykktum sjóðsins.

Skipting lífeyrisréttinda milli hjóna og sambúðarfólks

Sjóðfélagi og maki geta gert samkomulag um skiptingu lífeyrisréttinda, bæði áunnum réttindum og framtíðarréttindum.

Samningur um skiptingu réttinda verður að skriflegur, gagnkvæmur og jafn. Sjóðfélagi getur að
hámarki afsalað sér helming réttinda sinna til maka.

Samning um skiptingu áunninna réttinda þarf að gera áður en taka ellilífeyris hefst og fyrir 65 ára
aldur. Skilyrði fyrir skiptingu lífeyrisréttinda er að sjúkdómar eða heilsufar dragi ekki úr lífslíkum.

Skipting hefur ekki áhrif á maka-, örorku- og barnalífeyrisréttindi.

Sjóðfélagi og maki þurfa að skila inn undirrituðum samningi um skiptingu lífeyrisréttinda ásamt
vottorði frá Þjóðskrá um upphaf sambúðar eða hjónabands og heilsufarsvottorði undirritað af
heimilislækni.

Setja þarf samning um skiptingu lífeyrisréttinda og heilbrigðisvottorð inn á vef sjóðsins undir
Umsóknir:

Skipting lífeyrisgreiðslna milli hjóna og sambúðarfólks

Heimilt er að skipta lífeyrisgreiðslum við lífeyristöku án þess að réttindum sé skipt. Við andlát
stöðvast skipting og sjóðfélagi fær óskiptar greiðslur en maki fær greiddan makalífeyri.

Hér má lesa um skiptingu lífeyrisréttinda á vef lifeyrismal.is.