Spurt og svarað

Algengar spurningar um viðbótarsparnað.


Hverjir eru helstu kostir viðbótarsparnaðar?

Stærsti kosturinn við viðbótarlífeyrissparnað er mótframlag launagreiðanda. Þú leggur fyrir 2% eða 4% af launum þínum og færð 2% mótframlag frá launagreiðanda. Launin þín hækka þannig um 2% þegar þú byrjar að greiða í viðbótarsparnað. Viðbótarsparnaður er launahækkun.

Eign þín í viðbótarsparnaði er ekki framtalsskyld og kemur því ekki til lækkunar á vaxta- og/eða barnabótum.

Ekki er hægt að ganga að viðbótarsparnaði ef þú lendir í fjárhagsörðugleikum, s.s. gjaldþroti.

Viðbótarsparnaður ekki skattlagður fyrr en útgreiðsla hefst.

Enginn fjármagnstekjuskattur er greiddur af ávöxtun á viðbótarlífeyrissparnaði en hann er 22% í dag af hefðbundnum sparnaði.

Eign í viðbótarsparnaði er erfanleg að fullu og enginn erfðafjárskattur er greiddur ef eignin rennur til maka eða barna.

Launagreiðandi þinn sér um að standa skil á greiðslum í viðbótarsparnað.

Ef launagreiðandi verður gjaldþrota ábyrgist Ábyrgðasjóður launa vangreiddar greiðslur í viðbótarsparnað vegna launþega, þó að hámarki 4% iðgjald.

Nú má nýta viðbótarsparnað í allt að 10 ár vegna fyrstu fasteignakaupa, sem skattfrjálsa útborgun í íbúð og greiðslur inn á höfuðstól verðtryggðra lána eða afborganir og höfuðstól óverðtryggðra lána.

Hér má lesa meira um viðbótarsparnað

Hvernig skrái ég mig í viðbótarsparnað hjá Lífsverki?

Það er afar einfalt með rafrænni undirritun hér á vef Lífsverks, þegar þú hefur lokið við umsóknina lætur þú vinnuveitanda vita að nú skuli greiða viðbótarsparnaðinn þinn til Lífsverks.

Get ég flutt uppsafnaðan viðbótarsparnað milli sjóða?

Viðbótarsparnaðinn er hægt að flytja á milli sjóða, þá fyllir þú út umsókn hjá þeim sjóði sem þú vilt flytja sparnaðinn til. Kostnaðurinn við flutninginn fer eftir gjaldskrá þess sjóðs sem flutt er frá. Lífsverk tekur 5000kr fyrir slíkan flutning þegar viðbótarsparnaður er fluttur frá okkur. Það getur tekið allt að 2 mánuði að flytja sparnaðinn og mun Lífsverk láta þig vita þegar uppsafnaður sparnaður er kominn í okkar vörslu.

Hér er hægt að sækja um flutning á uppsöfnuðum sparnaði til Lífsverks. Valin er umsókn sem heitir “flutningur séreignar”.

Hversu margar leiðir býður Lífsverk uppá í viðbótarsparnaðinum?

Lífsverk býður uppá 3 sparnaðarleiðir, áherslurnar í eignastýringu hverrar leiðar eru misjafnar.

Leið 1 er mesta áhættan og er hún hugsuð fyrir sjóðfélaga sem geta tekið sveiflum í ávöxtun, að jafnaði ungt fólk á fyrstu 10-15 árum starfsævinnar.

Leið 2 er algengasta leiðin og leið 3 er minnsta áhættan, hentar sjóðfélögum á síðustu árum starfsævinnar, eða eftir að eftirlaunaaldri er náð.

Hér má lesa meira um leiðirnar 3.

Hvar sé ég ávöxtun sparnaðarleiða Lífsverks?

Á vef Lífsverks eru reglulega uppfærðar upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og 10 stærstu eignir hverrar leiðar.

Hér má finna upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og 10 stærstu eignir hverrar leiðar.

Hvenær get ég tekið út séreigina mína?

Heimilt er að byrja að taka út séreign þegar 60 ára aldri er náð. Tilgreinda séreign má taka út þegar 62 ára aldri er náð.

Hægt er að taka alla séreigina út í eingreiðslu, taka hana út mánaðarlega eða stöku eingreiðslur eftir því sem við á hjá hverjum og einum.

Hvað er bundin séreign?

Skylduiðgjald í lífeyrissjóð er 15,5% af launum sem launagreiðandi sér um að greiða til lífeyrissjóðs. Með því að velja blönduðu leiðina hjá Lífsverki færist iðgjald sem er umfram 10% af launum í séreign sjóðfélaga, sem nefnd er bundin séreign. Sömu reglur gilda um útgreiðslu bundinnar séreignar og útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar.

Er bundin séreign sama og viðbótarlífeyrissparnaður?

Nei. Gera þarf sérstakan samning um viðbótarífeyrssparnað við lífeyrissjóð. Bundin séreign er hluti af skylduiðgjaldi til lífeyrissjóðs.

Hægt er að nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á lán en það er ekki hægt með bundna séreign.

Hvað er tilgreind séreign?

Skylduiðgjald í lífeyrissjóði er 15,5% af launum samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði en er 12% samkvæmt lögum. Tilgreind séreign er mismunur á 12% og 15,5% og sjóðfélagar geta valið um hvort þetta framlag fari í séreign eða í samtryggingu. Hægt er að flytja tilgreinda séreign á milli lífeyrissjóða. Tilgreinda séreign má taka út þegar 62ja ára aldri er náð.

Erfist séreign?

Öll séreign erfist samkvæmt erfðalögum.