Samþykktir

Kaflar

1. gr. Nafn og heimili
2. gr. Hlutverk sjóðsins
3. gr. Aðild að sjóðnum
4. gr. Iðgjöld
5. gr. Ávöxtun á fé sjóðsins
6. gr. Grundvöllur lífeyrisréttinda
7. gr. Ellilífeyrir
8. gr. Örorkulífeyrir
9. gr. Makalífeyrir
10. gr. Barnalífeyrir
11. gr. Tilhögun lífeyrisgreiðslna, verðtrygging viðmiðunarfjárhæða.
12. gr. Flutningur iðgjalda úr sjóðnum.
13. gr. Bann við framsali og veðsetningu.
14. gr. Gerðardómur og upplýsingaskylda
15. gr. Stjórn sjóðsins
16. gr. Reikningar, endurskoðun og tryggingarfræðileg athugun.
17. gr. Aðalfundur
18. gr. Ráðstöfun á eignum, ef sjóðurinn verður lagður niður
19. gr. Bráðabirgðaákvæði
20. gr. Séreignardeild
21. gr. Tilgreind séreignardeild 
22. gr. Breytingar á samþykktum

23. gr. Gildistaka

Viðauki A. Réttindatöflur frá 1.6.2023 

 

SAMÞYKKTIR

LÍFSVERKS LÍFEYRISSJÓÐS

1. gr.  Nafn og heimili

1.1. Sjóðurinn heitir Lífsverk lífeyrissjóður. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk sjóðsins

2.1 Hlutverk sjóðsins er að veita viðtöku iðgjaldi sjóðfélaga og ávaxta það ásamt því að greiða sjóðfélögum elli- og örorkulífeyri og eftirlifandi mökum þeirra og börnum maka- og barnalífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.

2.2 Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og tryggir þau lágmarksréttindi sem þar greinir með viðtöku lífeyrisiðgjalda og ávöxtun þeirra.

2.3 Lífeyrissjóðurinn starfar í þremur deildum, samtryggingardeild, séreignardeild og tilgreindri séreignardeild. Sjóðurinn veitir samþætt lífeyrisréttindi á grundvelli iðgjalds sem skiptist milli samtryggingar- og séreignardeilda sjóðsins. Til séreignardeildar greiðast ennfremur viðbótariðgjöld skv. ákvörðun sjóðfélaga.

2.4 Lífeyrissjóðurinn hefur ekki með höndum aðra starfsemi en nauðsynlegt er til að sinna hlutverki sínu og er óheimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

3. gr. Aðild að sjóðnum

3.1 Lífeyrissjóðurinn er sjóður háskólamenntaðra. Þau sem hafa lokið háskólanámi eða eru í námi við viðurkenndan háskóla geta orðið sjóðfélagar. Öllum er heimilt að gera samning um viðbótarsparnað við sjóðinn, greiða til séreignardeildar sjóðsins og gerast rétthafar.

3.2 Nú berst iðgjald vegna manns, sem fullnægir aðildarskilyrðum gr. 3.1, og skal þá litið á það sem umsókn um aðild að sjóðnum.

3.3 Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóðnum á grundvelli heilsufars hans , aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar, kyns eða annarra ólögmætra ástæðna.

3.4 Sjóðfélagar eru þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjald til  samtryggingardeildar sjóðsins og eiga hjá honum réttindi eins og nánar er fyrir mælt í lögum nr. 129/1997. Elli- og örorkulífeyrisþegar teljast einnig sjóðfélagar. Rétthafar eru þeir sem réttindi eiga í séreignardeild sjóðsins.  Greiðsla lífeyrisiðgjalds til sjóðsins telst fela í sér staðfestingu á því að sá sem öðlast réttindi skv. greiðslunni fallist á að hlíta samþykktum sjóðsins.

4. gr. Iðgjöld

4.1 Iðgjöld sjóðfélaga skulu að lágmarki vera þau sem kveðið er á um í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á hverjum tíma, nú 15,5% af iðgjaldsstofni.   Til samtryggingardeildar skal renna að lágmarki 10% iðgjald til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem kveðið er á um í lögum á hverjum tíma og sem sjóðurinn veitir.  Þeim hluta iðgjalds sjóðfélaga sem berst sjóðnum og er umfram 10% af iðgjaldsstofni skal ráðstafað í séreign, Lífsverk 2, enda mæli sjóðfélagi ekki fyrir um annað.  Óski sjóðfélagi þess skal allt iðgjald hans renna til samtryggingardeildar, þó ekki umfram 16% af iðgjaldsstofni. Sjóðnum er heimilt að taka við iðgjaldi skv. ákvæðum kjarasamnings þótt skipting þess sé önnur en að ofan greinir, enda sé sýnt fram á að iðgjaldsgreiðslur skv. þeirri skiptingu fullnægi kröfu um greiðslu lágmarksiðgjalds  skv. 2. gr. laga nr. 129/1997.

Lágmarkstryggingarvernd miðast við að innborgun hefjist við 20 ára aldur.

4.2 Iðgjald samkvæmt gr. 4.1 skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7.gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt. Til iðgjaldsstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Iðgjaldsstofn sjóðfélaga vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal að lágmarki vera jafnhár fjárhæð reiknaðs endurgjalds skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra hverju sinni

4.3 Launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa sjóðnum skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Launagreiðandinn er ábyrgur fyrir skilvísum greiðslum iðgjalda. Sama gildir um þá sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

4.4 Lífeyrisiðgjald skal greitt reglulega í hverjum mánuði og er gjalddagi hvers iðgjaldamánaðar tíundi dagur næsta mánaðar á eftir. Eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Sé greitt eftir eindaga skal innheimta vanskilavexti á vangreidd iðgjöld frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

4.5 Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt  fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. gr. 4.9. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem tapast við gjaldþrot og Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist ekki skv. 10. gr. laga nr. 88/2003.

4.6 Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins lengur en til 72 ára aldurs.

4.7 Sjóðfélagar ábyrgjast ekki skuldbindingar sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

4.8 Sjóðfélagi skal tilkynna lífeyrissjóðnum hver skuli greiða iðgjöld vegna hans til sjóðsins. Sjóðfélagi skal tilkynna lífeyrissjóðnum strax um allar breytingar sem máli skipta vegna greiðslna iðgjalda til sjóðsins, t.d. ef hann skiptir um vinnuveitanda, breyting verður á starfshlutfalli, hann tekur leyfi frá störfum vegna náms, barnsburðar eða ef hann verður atvinnulaus.

4.9 Tvisvar á ári, á sex mánaða fresti, skal senda sjóðfélögum yfirlit um iðgjaldagreiðslur með rafrænum hætti, þar sem rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga er krafist. Sjóðfélagi sem eftir því óskar skal þó fá yfirlit á pappírsformi sér að kostnaðarlausu. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits eða birtingu auglýsingar, sé það síðar, og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. 

4.10 Senda skal lokaviðvörun til launagreiðanda ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu lokaviðvörunar eða fyrr, sé rökstudd ástæða til að ætla að iðgjaldskrafa sé ótrygg.

4.11 Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðanda. Lokaviðvörun til launagreiðanda skal senda innan 90 daga frá dagsetningu yfirlits samkvæmt 4.9. Heimilt er lífeyrissjóðnum að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil.

4.12 Öllum innborgunum launagreiðanda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafað til greiðslu elstu ógreiddra iðgjalda og vanskilavaxta launagreiðanda og skapa réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tifelli að hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum, sbr. grein 4.10, fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Ennfremur ef lög kveða á um annað, sbr. meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðanda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.

4.13 Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið að iðgjöld samkvæmt 4.1 skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. gr. 7.10.b. Þessari skiptingu iðgjalda skal hætt að ósk sjóðfélaga, enda framvísi hann skilríkjum um að fjárfélagi hans og maka hans hafi verið slitið eða aðilar hafi gert með sér nýtt samkomulag.

5. gr. Ávöxtun á fé sjóðsins

5.1  Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Fjárfestingarstefnan skal uppfylla allar þær kröfur um form og efni sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma. Stjórn setur lánareglur vegna sjóðfélagalána.

5.2 Stjórn sjóðsins skal móta áhættustefnu og tryggja verklag í samræmi við stefnuna til að draga úr tapsáhættu af fjárfestingum með hliðsjón af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu. Áhættustefna skal taka til þeirra áhættuþátta sem tilmæli FME tilgreina. Á aðalfundi skal gera grein fyrir áhættustýringu og mati á áhrifum sveiflna eða eignataps á stöðu sjóðsins.

6. gr. Grundvöllur lífeyrisréttinda

6.1 Réttindi sjóðfélaga til lífeyris eru reiknuð í krónum og ráðast þau af því iðgjaldi sem greitt hefur verið í lífeyrissjóðinn og gildandi réttindatöflum hverju sinni. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins samkvæmt töflu I - III í viðauka A. Réttindi eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af. Réttindaöflun fyrir iðgjöld, sem greidd voru til sjóðsins fyrir 1. janúar 2001, fer nánar eftir ákvæðum 19. gr. Í töflum I-IV í viðauka A er tilgreint hvernig lífeyrisréttindi sjóðfélaga eru reiknuð í samræmi við réttindaákvæði 7.-10. gr. Teljast töflurnar hluti af samþykktum þessum.

6.2   Komi í ljós við árlega tryggingafræðilega athugun sjóðsins að mismunur á verðmæti iðgjalda og framtíðarskuldbindinga reiknist meira en 3% af framtíðarskuldbindingum eða minna en -1% skal reikna nýjar réttindatöflur fyrir sjóðinn. Skulu þær þannig gerðar að verðmæti iðgjalda reiknist umfram framtíðarskuldbindingar en munurinn sé þó ekki meiri en 1% af framtíðarskuldbindingum.  Skulu nýju töflurnar taka gildi frá og með næstu áramótum þaðan í frá og við það miðað í tryggingafræðilegri athugun sjóðsins þetta ár. Slíkar breytingar skulu kynntar á aðalfundi sjóðsins.

6.3 Áunnin lífeyrisréttindi, eins og þau eru skilgreind í 7.-10. gr. og reiknuð samkvæmt greinum 6.1 og 6.2, skulu varðveitt í samræmi við gildandi reglur hverju sinni, þannig að lífeyrisgreiðslur verði samkvæmt uppsöfnuðum réttindum hvers réttindatímabils. Framreikningur skal hverju sinni vera samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar réttur til lífeyris varð virkur. Samtala lífeyrisréttinda er summa áunninna lífeyrisréttinda og framreiknaðra lífeyrisréttinda ef slík réttindi hafa verið úrskurðuð. Framreiknuð lífeyrisréttindi teljast ekki með áunnum lífeyrisréttindum nema að því marki sem þau hafa fallið til frá úrskurði framreiknings, sbr. 8.gr., og minnkar framreiknaði hlutinn þá sem því nemur. Þegar ákvörðun er tekin um aukningu réttinda skulu þau vera greind frá öðrum réttindum. Réttindaaukning er ekki tekin með í framreikningi en hún reiknast að fullu í áunnum réttindum. Komi til skerðingar á áunnum réttindum sjóðfélaga skal fara með réttindaskerðinguna á sama hátt og réttindaaukningu nema að skerðingin kemur til frádráttar áunnum réttindum. Breyting réttinda skv. framanskráðu skal færð í réttindabókhaldi sjóðsins miðað við síðasta mánuð þess tímabils sem tryggingafræðileg úttekt skv. gr. 16.3 samþykkta þessara tekur til. Hækkun eða lækkun lífeyrisgreiðslna getur fyrst tekið gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að staðfesting ráðuneytis þar að lútandi liggur fyrir.

6.4.  Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl., svo og um reglur sem miða að því að tryggja að sjóðfélagar sem greitt hafa til fleiri lífeyrissjóða verði við lífeyristöku eins settir og hefðu þeir greitt til eins sjóðs, sbr. 19. gr. laga 129/1997.

7. gr. Ellilífeyrir

7.1 Sjóðfélagi sem er orðinn 67 ára og á réttindi í sjóðnum á rétt á ellilífeyri ævilangt.

7.2 Heimilt er sjóðfélaga að fresta um einn mánuð í senn allt til 80 ára aldurs töku ellilífeyris, og hækkar lífeyrir þá um 1/12 af hækkun heils árs samkvæmt töflum III og IV í viðauka A fyrir hvern mánuð sem líður frá því 67 ára aldri er náð og þar til taka lífeyris hefst.

7.3 Heimilt er sjóðfélaga að flýta töku lífeyris um allt að sjö ár og lækkar lífeyririnn þá skv. töflu II í viðauka A.

7.4 Við töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur ráðstafar sjóðfélagi elli- og örorkulífeyrisréttindum sínum endanlega og á því ekki sjálfstæðan rétt til örorkulífeyris eftir það.

7.5 Sjóðfélagi getur ákveðið að hefja töku ellilífeyris að hálfu hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna sbr. gr. 7.4. Ákvæði gr. 7.3. skal gilda  um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði gr. 7.2 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.

7.6 Iðgjöld sem sjóðfélagi greiðir eftir 67 ára aldur veita réttindi skv. töflu IV miðað við upphaf lífeyristöku á grundvelli þessara iðgjalda.

7.7 Við notkun taflna í viðauka A ber að miða við lífaldur sjóðfélaga í lok þess almanaksmánaðar sem iðgjöld tilheyra. Hækkun vegna frestunar eða lækkun vegna snemmtöku reiknast samkvæmt töflu II og III í viðauka A í heilum mánuðum miðað við lífaldur.

7.8 Hafi sjóðfélaga verið úrskurðaður örorkulífeyrir skal vegna þess tíma, sem örorkulífeyrir hefur verið greiddur, aukið við ellilífeyrisréttindi hans  sem svarar ávinnslu skv. gr. 8.12, liðum a-c.

7.9 Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris skal reikna réttindi hans út með tilliti til allra inngreiddra iðgjalda sjóðfélagans. Greiði sjóðfélagi iðgjöld til sjóðsins eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris getur hann krafist þess að lífeyrir hans verði endurreiknaður einu sinni á ári eftir að taka lífeyris hófst. Til frádráttar ellilífeyri sjóðfélaga, þannig reiknuðum, skal síðan koma sá ellilífeyrir sem hann hefur afsalað sér samkvæmt gr. 7.10 (skipting ellilífeyrisréttinda).

7.10 Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta ellilífeyrisréttindum á milli sín og maka síns með skriflegum samningi  í samræmi við 14.grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þannig:

  1. Að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka, og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Þessi ákvörðun skal tekin áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og þá háð því að sjúkdómar eða heilsufar sjóðfélaga hafi ekki dregið úr lífslíkum. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða;
  2. að iðgjald vegna hans, sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi, skuli að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til ellilífeyris skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu. Örorku- og makalífeyrisréttindi sjóðfélagans taka eftir sem áður mið af óskiptum iðgjaldsstofni. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.

8. gr. Örorkulífeyrir

8.1 Sjóðfélagi, yngri en 67 ára, sem verður fyrir missi starfsorku, sem svarar a.m.k. 40%, og verður af þeim sökum vanhæfur til að gegna starfi sínu, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi hans skv. 6.gr. Þá á sjóðfélagi rétt sem tekur mið af þeim réttindum sem ætla má að hann hefði áunnið sér með áframhaldandi iðgjaldsgreiðslum til sjóðsins skv. þeim reglum sem hér fara á eftir.

8.2 Trúnaðarlæknir sjóðsins metur hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Mat á missi starfsorku skal miðast við þær heilsufarslegu breytingar sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir eftir að hann hóf iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins og skal einkum taka mið af getu sjóðfélaga til að gegna starfinu sem veitti honum aðild að sjóðnum. Orkutap skal síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telur ástæðu til.

8.3 Heimilt er sjóðnum, að fengnu áliti trúnaðarlæknis hans, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari með tilstyrk sjóðsins í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans og starfshæfni, enda leyfi aðstæður viðkomandi að hann nýti sér hana.  Endurmat á orkutapi skal fara fram að lokinni endurhæfingu.

8.4 Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 10 vera hærri en sem svarar þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu þrjú  almanaksár fyrir orkutapið, sbr. a) lið gr. 8.5 um framreikning. Telji sjóðfélagi þetta meðaltal gefa ranga mynd af tekjumissi hans er stjórn sjóðsins heimilt að horfa til lengri tíma til að fá sem gleggsta mynd af tekjutapi sjóðfélagans af völdum tapaðrar starfsorku. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjur taka þeim breytingum sem verða á launavísitölu.

Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Í úrskurði um lífeyri skal greina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyri vegna tekna er miðað. Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar skv. launaframtali, sé þess óskað. Heimilt er að fresta eða fella niður greiðslur lífeyris, veiti sjóðfélagi ekki  umbeðnar upplýsingar.

8.5 Til viðbótar áunnum réttindum skv. 6.gr. á sjóðfélagi sem misst hefur starfsorku skv. framanskráðu rétt á framreikningi réttinda, uppfylli hann eftirgreind skilyrði:

a) hefur greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum árum .

b) hefur greitt iðgjald til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.

c) hefur ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

8.6 Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings, sem fallið hefur niður vegna  tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðsins. Tímabil er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður vegna veikinda reiknast ekki með þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.

8.7 Þegar skilyrði í grein 8.5 um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 6.gr., að viðbættum lífeyri sem svarar til þeirra réttinda sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér með iðgjaldsgreiðslum fram til 65 ára aldurs, reiknað samkvæmt grein 8.8. Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði, nýtur hann því aðeins framreikningsréttinda úr sjóðnum, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.

8.8 Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt á framreikningi réttinda samkvæmt gr. 8.5 skal um þann framreikning fara sem hér segir:

a) Reikna skal meðaltal iðgjalda sjóðfélaga næstu þriggja almanaksára fyrir orkutapið. Telji stjórn sjóðsins rökstudda ástæðu til að ætla að þetta þriggja ára meðaltal endurspegli ekki venjubundnar greiðslur, er honum heimilt að leggja til grundvallar iðgjaldsgreiðslur í allt að 8 ár aftur í tímann. Við útreikning meðaliðgjalds þessa tímabils skal hvorki taka tillit til þess árs, sem lægst iðgjöld bárust vegna sjóðfélaga, né þess árs, sem iðgjaldsgreiðslur voru hæstar, og reiknast meðaltalið því af iðgjöldum þeirra sex ára sem þá standa eftir. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld í skemmri tíma en 8 ár skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. Lífeyrisréttur sjóðfélaga vegna framreiknings ákvarðast jafn þeim réttindum, sem þetta meðaliðgjald, greitt til 65 ára aldurs, myndi hafa veitt honum skv. töflu I í viðauka A

b) Hafi sjóðfélagi fyrir orkutapið látið af því starfi sem iðgjöld hans byggðu á, þannig að tekjusaga fortíðar þyki að mati stjórnar sjóðsins ekki gefa trúverðuga vísbendingu um tekjutap hans í framtíðinni, er stjórn sjóðsins  heimilt að leggja til grundvallar mati á framtíðar iðgjaldsgreiðslum skv. framanskráðu áætlaðar framtíðartekjur umsækjanda í nýju starfi að hálfu leyti á móti útreikningi skv. a. lið, sem hafi þá 50% vægi við útreikninga á tekjuviðmiði til framreiknings.

8.9 Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap.

8.10 Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til örorkulífeyris, og ef nauðsynlegt er, gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá.

8.11 Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.

8.12 Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og eins ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 8.1 er ekki lengur fullnægt.

Áunnin ellilífeyrisréttindi örorkulífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við fyrsta úrskurð örorku að viðbættum réttindum vegna:

a) framreiknaðra réttinda í  hlutfalli við hundraðshluta örorkulífeyris af hámarks örorkulífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.

b) aukningar  eða skerðingar réttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka örorkulífeyris hófst.

c) réttinda sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku.   Hafi örorkuþega verið úrskurðað iðgjald til framreiknings fyrir þann tíma, sem iðgjald er síðan greitt fyrir, skal þó aðeins reiknuð réttindaöflun fyrir það þann hluta iðgjaldsins, sem er umfram það iðgjald sem lagt var til grundvallar framreikningi, hlutfallað með örorkustigi sjóðfélagans þegar iðgjald er greitt. Réttindi sem örorkuþegi ávinnur sér eftir 65 ára aldur skulu metin að fullu til greiðslu ellilífeyrisréttinda.

9. gr. Makalífeyrir

9.1 Við lát sjóðfélaga öðlast maki hans rétt til makalífeyris úr sjóðnum. Lífeyririnn er ákveðinn í samræmi við greinar 9.2-9.6.

9.2 Maki samkvæmt þessari grein er sá eða sú sem  við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.

9.3 Rétturinn til lífeyris samkvæmt þessari grein fellur niður, ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi, sé hinu síðara hjónabandi slitið. Veiti hið síðara hjónaband einnig rétt til lífeyris úr sjóðnum getur makinn valið þann lífeyrinn sem hærri er.

9.4 Upphæð makalífeyris er 60% af þeim örorkulífeyri sem hinn látni sjóðfélagi hefði hlotið, ef hann hefði orðið 100% öryrki á dánardægri. Hafi hinn látni verið ellilífeyrisþegi er lífeyrir makans 60% af ellilífeyri hans.

9.5 Lífeyrissjóðurinn skal greiða makalífeyri til maka látins sjóðfélaga sem greitt hafði iðgjöld til sjóðsins eða sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum. Greiða skal makalífeyri í að minnsta kosti 60 mánuði eftir andlát sjóðfélaga samkvæmt gr. 9.4.

Að loknum 60 mánuðum skal síðan greiða fullan makalífeyri svo lengi sem eitthvert skilyrða a) – c) er uppfyllt:

a) Maki látins sjóðfélaga hafi á framfæri sínu barn yngra en 19 ára. (sbr. gr. 10.1)

b) Maki látins sjóðfélaga er að minnsta kosti 50% öryrki og tekjuöflunahæfni hans verulega skert að mati trúnaðarlæknis sjóðsins. Rétt þennan öðlast maki ef hann er öryrki við lát sjóðfélaga eða verður öryrki á meðan hann er á makalífeyri og er yngri en 67 ára.

c) Við 67 ára aldur maka látins sjóðfélaga öðlast maki á ný rétt til makalífeyris, enda hafi makalífeyrir fallið niður áður og maki ekki gengið í hjónaband á ný eða stofnað til óvígðrar sambúðar. Makalífeyrir skal þá vera 60% af þeim ellilífeyrisrétti sem hinn látni ávann sér fyrir 1. janúar 2007.

 9.6 Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið að skipan mála sé skv. 1.-3 tölulið þessarar greinar. Samkomulag þetta skal eftir því sem við á ná til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis elliífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur eða óvígð sambúð hefur staðið eða stendur:

1. Að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Sjóðurinn skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki, sem nýtur slíkra greiðslna, hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar renna til sjóðfélagans.

2. Áður en taka lífeyris hefst  en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, að verðmæti upsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur.  Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.

3. Að iðgjald vegna sjóðfélaga sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu.

10. gr. Barnalífeyrir

10.1 Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 19 ára, skulu fá árlegan lífeyri úr sjóðnum þar til þau eru fullra 19 ára að aldri, enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að mestu eða öllu leyti. Sama rétt eiga fósturbörn sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti.

10.2 Ef barnið á foreldri, kjörforeldri eða fósturforeldri á lífi, sem sér um framfærslu þess, er lífeyrir þess 15% af þeim örorkulífeyri, sem hinn látni sjóðfélagi hefði hlotið, ef hann hefði orðið 100% öryrki á dánardægri. Hafi hinn látni verið ellilífeyrisþegi er lífeyrir barnsins 15% af ellilífeyri hans.

10.3 Fullur barnalífeyrir skal að lágmarki vera 5.500 kr. á mánuði með hverju barni  örorkulífeyrisþega. Fjárhæðin breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5.

10.4 Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir að lágmarki vera 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

10.5 Eigi barnið ekki framfæranda á lífi, svo sem að framan greinir, er lífeyrir þess tvöfalt hærri.

10.6 Sama rétt öðlast börn, kjörbörn og fósturbörn sjóðfélaga, ef hann verður öryrki og fær örorkulífeyri úr sjóðnum. Lífeyrir þeirra skal nema jafnstórum hundraðshluta af  lífeyrisupphæð þeirri, sem greinir í greinum 10.2-10.4, sem örorka sjóðfélagans er metin.

10.7 Veiti fráfall eða örorka sjóðfélaga börnum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

11. gr. Tilhögun lífeyrisgreiðslna, verðtrygging viðmiðunarfjárhæða.

11.1 Lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum eru ákvarðaðar í samræmi við rétt sjóðfélagans.

11.2 Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftirá, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð, er lífeyrisréttur myndaðist, og síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Aldrei skal þó sjóðstjórn skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en fjögur ár. Úrskurður skv. þessu skal þá miðast við réttindareglur eins og þær hafa verið á umræddu tímabili. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur. Ellilífeyrir greiðist frá upphafi þess mánaðar sem um hann er sótt eða útborgun hefst skv.ákvæðum gr.7.1 og 7.2.

11.3 Nái ellilífeyrisréttindi ekki 4.000 krónum á mánuði er stjórn sjóðsins heimilt að greiða réttindin sem eingreiðslu í samræmi við tillögur tryggingafræðings, óski sjóðfélagi þess.  Viðmiðunarupphæðin breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

12. gr. Flutningur iðgjalda úr sjóðnum.

12.1 Óheimilt er að flytja iðgjöld sjóðfélaga úr sjóðnum í aðra lífeyrissjóði. Heimilt er þó að flytja iðgjöld sjóðfélaga í annan lífeyrissjóð þegar að töku lífeyris kemur.

12.2 Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að . Óheimilt er að takmarka endurgreiðsluna við tiltekinn hluta iðgjaldsins. Þegar iðgjöld eru þannig endurgreidd úr sjóðnum skulu þau greiðast með vöxtum sem miðast við ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma, en að frádreginni hæfilegri upphæð fyrir rekstrarkostnaði sjóðsins og þeirri áhættu sem hann hefur borið.

13. gr. Bann við framsali og veðsetningu.

13.1 Óheimilt er að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur skv. samþykktum þessum.

14. gr. Gerðardómur og upplýsingaskylda

14.1 Vilji sjóðfélagi, eða lífeyrisrétthafi sem ekki er sjóðfélagi, ekki hlíta úrskurði sjóðstjórnar um eitthvert atriði  varðandi sjóðinn, getur hann lagt málið fyrir gerðardóm. Hann skal þá tilkynna sjóðstjórninni það innan fjögurra vikna frá því hann fær tilkynningu um úrskurð hennar. Jafnframt skal hann tilnefna gerðardómsmann af sinni hálfu. Sjóðstjórninni ber þá að tilnefna annan gerðardómsmann innan tveggja vikna. Þeir velja síðan oddamann, en geti þeir ekki komið sér saman um oddamanninn, skal hann tilnefndur af héraðsdómi Reykjavíkur. Úrskurður gerðardómsins er bindandi fyrir báða aðila og verður ekki lagður fyrir aðra dómstóla. Málskostnaði skal skipt á milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi eða lífeyrisrétthafi ekki greiða meira en 1/3 hluta málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

14.2 Sjóðfélagi á rétt á að fá aðgang að öllum tiltækum upplýsingum er varða hann sjálfan. Sjóðurinn skal tvisvar á ári senda út yfirlit yfir inngreidd iðgjöld og einu sinni á ári skal senda út yfirlit yfir áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga. Sjóðurinn skal jafnframt a.m.k. einu sinni á ári upplýsa sjóðfélaga um rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og um breytingar á samþykktum.  Senda má yfirlit þessi með rafrænum hætti, enda hafi sjóðfélagi óskað eftir því, sbr. gr. 4.9.

15. gr. Stjórn sjóðsins

15.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð 5 mönnum og 5 mönnum til vara og skulu þeir vera sjóðfélagar í Lífsverk lífeyrissjóði. Stjórnarmenn skulu kjörnir af sjóðfélögum með rafrænni kosningu, sbr. gr. 15.2, til þriggja ára í senn. Tvö árin skulu tveir stjórnarmenn kjörnir í hvort sinn og þriðja árið skal einn stjórnarmaður kjörinn. Þau ár sem tveir stjórnarmenn eru kosnir skal kjósa eina konu og einn karl. Kjósa skal  jafnmarga í varastjórn á aðalfundi sjóðsins. Þegar kjósa skal einn stjórnar– og varastjórnarmann þá ræður kosning óháð kyni. Hlutfall annars kynsins í stjórn sjóðsins skal aldrei verða lægra en 40%.

15.2 Kosning skal rafræn og byggjast á gildandi sjóðfélagaskrá í lok síðasta mánaðar áður en rafræn kosning fer fram, og vefaðgangi sjóðfélaga að henni. Fyrir lok desembermánaðar ár hvert skal stjórn sjóðsins skipa þriggja manna kjörnefnd, sem annast skal framkvæmd stjórnarkjörs fyrir komandi starfsár. Kjörnefnd skal minnst sex vikum fyrir aðalfund auglýsa á vefsvæði sjóðsins hvenær stjórnarkjör fari fram og eftir framboðum til setu í stjórn skv gr. 15.1. Fyrir sama tíma skal senda sjóðfélögum boð um aðalfund og stjórnarkjör. Skal framboðsfrestur minnst 14 dagar og skal skila framboðum til kjörnefndar ásamt minnst fimm og mest tíu meðmælendum úr hópi sjóðfélaga fyrir lok framboðsfrests. Kjörnefnd úrskurðar um lögmæti framboða og skal að því gerðu kynna þau á vefsvæði sjóðsins næstu 7 daga og skal rafræn kosning meðal sjóðfélaga hefjast að lokinni kynningu frambjóðenda og standa yfir í fimm virka daga. Á þeim tíma skulu sjóðfélagar eiga þess kost að greiða atkvæði á skrifstofu sjóðsins á venjubundnum afgreiðslutíma hans. Allir sjóðfélagar eru kjörgengir og njóta kosningaréttar til stjórnar.

Um stjórnarkjör gilda reglur um meirihlutakosningu, þannig að hver kjósandi getur kosið allt að þeim fjölda frambjóðanda sem kjósa á hverju sinni. Þeir teljast rétt kjörnir sem flest atkvæði fá, þó að gættum reglum um kynjakvóta skv. gr. 15.1.

Kjörnefnd setur nánari reglur um framkvæmd kosningarinnar, m.a. um kærufrest og meðferð gagna, úrskurðar um lögmæti kosningar og kynnir niðurstöður stjórnarkjörs á aðalfundi sjóðsins. Reglur um framkvæmd kosninga skulu staðfestar af stjórn og kynntar á vefsvæði sjóðsins eigi síðar en samtímis því að auglýst er eftir framboðum.

15.3 Stjórnarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði laga nr. 129/1997. Þeir skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa gott orðspor og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Þá skulu stjórnarmenn uppfylla ákvæði 2. mgr. 31. gr. laga 129/1997 um óhæði m.a. gagnvart öðrum eftirlitsskyldum aðilum. Þeir skulu og hafa nægjanlega þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt og uppfylla reglur FME um hæfi.

Stjórnarmenn skulu ekki sitja sem kjörnir aðalmenn lengur í stjórn en þrjú kjörtímabil (níu ár).

15.4 Stjórnarmaður getur hvenær sem er sagt starfa sínum lausum. Uppfylli stjórnarmaður ekki lengur skilyrði til þess að vera í stjórn, sbr. gr. 15.3 eða 31. gr. laga nr. 129/1997, skal honum skylt að segja starfa sínum lausum. Tilkynningu þar um skal hann senda stjórn sjóðsins. Við þær aðstæður skal varamaður taka stað þess stjórnarmanns sem sagði starfa sínum lausum og sitja þann tíma sem eftir er af kjörtíma þess stjórnarmanns. Sé enginn varamaður til að koma í stað stjórnarmanns hvílir sú skylda á hinum stjórnarmönnunum að efna til kjörs nýs stjórnarmanns fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtíma hins fyrri.

15.5 Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin setur sér starfsreglur og heldur gerðabók og ritar í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur eða varamenn í þeirra stað. Til að skuldbinda sjóðinn þarf undirskrift þriggja stjórnarmanna. Formaður boðar varamenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir.

15.6 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans og skal sjá til þess að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997, reglugerða settum samkvæmt þeim og samþykkta þessara. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og gerir við hann ráðningarsamning. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast innri endurskoðun. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu hans, setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur, iðgjöld, réttindaávinnslu og ráðstöfun eigna sjóðsins. Þá skal stjórnin setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna og fá þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. 

15.7 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og fer í því efni eftir ákvæðum laga nr. 129/1997, reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, samþykktum sjóðsins og þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn sjóðsins hefur gefið.  Framkvæmdastjóri fer með atkvæði sjóðsins á fundum hlutafélaga sem sjóðurinn á hluti í, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Um hæfi framkvæmdastjóra fer að öðru leyti eftir ákvæðum greinar 15.3. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi. Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum.

15.8 Allar meiriháttar breytingar á skipulagi sjóðsins, innra eftirliti, bókhaldi og reikningsskilum skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn og að fengnu samþykki hennar.

15.9 Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum ber að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu og lánareglum sem stjórn sjóðsins hefur sett. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins.

15.10 Framkvæmdastjóri skal veita stjórn, endurskoðanda og endurskoðunarnefnd allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins sem þeir óska.

15.11 Hvorki stjórnarmaður lífeyrissjóðsins né framkvæmdastjóri mega taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Skylt er þeim sem í hlut á að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi skv. framansögðu. Um sérstakt hæfi stjórnarmanns og framkvæmdastjóra til meðferðar máls gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

15.12 Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins, mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra eða á kostnað sjóðsins. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðsins, eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.

15.13 Stjórnarmaður og framkvæmdastjóri sjóðsins skulu ekki sitja í stjórnum atvinnufyrirtækja í umboði hans. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins. Ef stjórnarmaður lífeyrissjóðsins er jafnframt stjórnarmaður í fyrirtæki, sem sjóðurinn á verulegan hlut í, getur sá hinn sami ekki gegnt stjórnarformennsku í lífeyrissjóðnum.

15.14 Stjórn Lífsverks lífeyrissjóðs er launuð og ákveður aðalfundur stjórnarlaun fyrir komandi starfsár.

16. gr. Reikningar, endurskoðun og tryggingarfræðileg athugun.

16.1 Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

16.2 Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sbr. ákvæði laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Endurskoðandi sjóðsins má ekki sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en endurskoðun og innra eftirliti. Endurskoðunarnefnd skal skipuð árlega.  Tveir nefndarmenn skulu valdir úr hópi sjóðfélaga með kosningu á aðalfundi sjóðsins til eins árs í senn og skulu þeir uppfylla skilyrði laganna um hæfi, þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar. Stjórn sjóðsins skipar þriðja nefndarmanninn og skal hann uppfylla skilyrði laganna um hæfi, staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Hvert sinn, er löggiltur endurskoðandi hefur lokið endurskoðun ársreikninga, skal hann gera skýrslu um endurskoðunina. Hið sama á við um innri endurskoðanda. Endurskoðunarnefnd skal árlega gera skýrslu um sín störf.  Hver skýrsla skal síðan lögð fyrir stjórn sjóðsins.  Stjórnin leggur endurskoðaða og undirritaða reikninga sjóðsins fyrir aðalfund hans til samþykktar. Þeir skulu liggja frammi sjóðfélögum til sýnis á þeim stað, sem sjóðurinn hefur afgreiðslu, í minnst eina viku fyrir aðalfundinn.

16.3 Sjóðstjórnin skal láta gera tryggingafræðilega athugun á sjóðnum á hverju ári í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997. Niðurstaðan skal lögð fyrir sjóðstjórnina. Einnig skal hún liggja frammi sjóðfélögum til sýnis á sama hátt og ársreikningarnir og sjóðfélögum gefinn kostur á að ræða hana á aðalfundi. Athugunin skal vera unnin af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs. Senda skal Fjármálaeftirlitinu árlega hina tryggingafræðilegu athugun.

16.4 Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Frávik skulu þó heimil innan þeirra vikmarka sem sett eru í lögum og samþykktum þessum. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Lífeyrisloforð sjóðsins til framtíðar skulu árlega endurskoðuð og breytt ef tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins gefa tilefni til, sbr. ákvæði greinar 6.2, en um breytingar á áunnum réttindum fer eftir ákvæðum gr. 16.5 og 16.6.

16.5 Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að eignir sjóðsins eru meira en 10% umfram lífeyrisskuldbindingar hans skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingafræðing,  gera tillögur til aðalfundar um hækkun lífeyrisréttinda. Sama gildir ef þessi munur hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt, að höfðu samráði við tryggingarfæðing sjóðsins og miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, að gera tillögu til aðalfundar um aukningu áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Aukningin skal gerð þannig að áunnin réttindi allra sjóðfélaga, eins og þau eru reiknuð skv. 7.-10. gr. þessara samþykkta, eru aukin hlutfallslega jafnmikið. Staða sjóðsins, það er mismunur eigna og skuldbindinga samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, skal þó ætíð vera jákvæð eftir aukningu réttinda, bæði þegar litið er til áunninna réttinda og heildarréttinda.

16.6 Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að eignir sjóðsins eru meira en 10% lægri en lífeyrisskuldbindingar hans, miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingafræðing,  gera tillögur til aðalfundar um lækkun lífeyrisréttinda, enda finnist ekki aðrar leiðir til að bæta fjárhag sjóðsins. Sama gildir ef þessi munur hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt, að höfðu samráði við tryggingafræðing sjóðsins og miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, að gera tillögu til aðalfundar um lækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Lækkunin  skal gerð með því að skerða áunnin réttindi allra sjóðfélaga, eins og þau eru reiknuð skv. 7.-10. gr. þessara samþykkta, hlutfallslega jafnmikið.

17. gr. Aðalfundur

17.1 Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert.

17.2 Stjórnin skal boða fundinn með  auglýsingu í dagblaði og með tilkynningu á heimasíðu sjóðsins með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Skýrsla stjórnar
2. Kynning ársreiknings
3. Gerð grein fyrir tryggingafræðilegri úttekt
4. Gerð grein fyrir fjárfestingarstefnu

5. Greint frá niðurstöðu stjórnarkjörs

6. Kosning varastjórnarmanna

7. Kjör endurskoðenda og tveggja fulltrúa í endurskoðunarnefnd

8. Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins þegar slíkar tillögur liggja fyrir. Um tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum 21.greinar.
9. Ákvörðun launa stjórnarmanna og endurskoðunarnefndar
10. Önnur mál, löglega upp borin

17.3 Allar tillögur um breytingar á samþykktum, sem bera á undir aðalfund, skal setja inn á sjóðfélagavef sjóðsins með minnst tveggja vikna fyrirvara og hafa sjóðfélögum aðgengilegar á skrifstofu sjóðsins.

17.4 Tillögur frá sjóðfélögum til breytinga á samþykktum má því einungis taka fyrir að þær hafi borist stjórn sjóðsins fyrir 15. janúar ár hvert. Miði tillaga að aukningu réttinda eða breytingum á fjárfestingarstefnu, sem ætla má að haft geti áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris, skal sjóðstjórn láta framkvæma tryggingafræðilega athugun á afleiðingum breytingarinnar á gjaldhæfi sjóðsins. Leiði sú athugun í ljós, að samþykkt tillögu leiddi til þess að sjóðurinn teldist ekki gjaldhæfur í merkingu gr. 16.4 eða að staða hans versni séu heildarskuldbindingar umfram heildareignir, skal tillagan og athugunin kynnt en ekki tekin til afgreiðslu á fundinum.

17.5 Aðalfundur er lögmætur, sé löglega til hans boðað, án tillits til fundarsóknar.

17.6 Á aðalfundi hafa sjóðfélagar tillögu- og atkvæðisrétt. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til allra samþykkta á aðalfundi nema breytinga á samþykktum þessum.

17.7 Hverjir þrír sjóðfélagar geta krafist þess að tiltekið mál sé tekið á dagskrá á aðalfundi, enda sendi þeir skrifleg tilmæli um það til sjóðstjórnar. Dagskrárbeiðni skal hafa borist sjóðstjórn fyrir 15. janúar ár hvert. Þegar um aukaaðalfund er að ræða þarf dagskrárbeiðnin að berast sjóðstjórninni með tilmælunum um að halda aukaaðalfund, sbr. grein 17.8.

17.8 Aukaaðalfund skal halda þegar meirihluti sjóðstjórnar telur ástæðu til eða minnst 25 sjóðfélagar senda stjórninni skrifleg tilmæli um það og greina tilefni. Fundinn skal halda innan þriggja mánaða eftir að tilmælin berast.

18. gr. Ráðstöfun á eignum, ef sjóðurinn verður lagður niður

18.1 Ákvörðun um að leggja sjóðinn niður er ekki gild nema hún sé samþykkt við skriflega og/eða rafræna atkvæðagreiðslu af minnst helmingi félagsmanna auk þess sem hún þarf að fullnægja ákvæðum 17. greinar um breytingar á samþykktum.

18.2 Verði sjóðurinn lagður niður, ber stjórn hans að ráðstafa eignum hans sem segir í greinum 18.3 og 18.4.

18.3 Með tilvísan í grein 18.2 skal, ef unnt er, sameina sjóðinn öðrum lífeyrissjóði og skal sá sjóður vera stofnaður með lögum eða njóta viðurkenningar Fjármálaráðuneytisins. Við sameiningu skal þess gætt að lífeyrisréttur sjóðfélaganna rýrni ekki frá því sem eignastaða sjóðsins gefur tilefni til.

18.4 Með tilvísan í grein 18.2 og ef ekki tekst sameining við annan lífeyrissjóð skv. grein 18.3, skal með eignir sjóðsins farið í samræmi við ákvæði 49. gr. laga 129/1997.

19. gr. Bráðabirgðaákvæði

19.1 Réttindi sjóðfélaga, eins og þau verða þann 31. des. 1990 skv. þágildandi ákvæðum reglugerðar, skulu umreiknuð til réttinda í samræmi við réttindaákvæði þau, sem gildi taka þann 1. jan 1991, og skulu verðtryggð upp frá því á sama hátt og þau réttindi sem myndast frá og með 1. jan 1991.

19.2 Til grunnréttinda sjóðfélaga teljast þau lífeyrisréttindi, sem ákveðin voru með umreikningi réttinda þann 31. desember 1990 og voru vegna iðgjalda sem greidd höfðu verið til sjóðsins fram til ársloka 1990, og lifeyrisréttindi sem inngreidd iðgjöld frá 1. janúar 1991 til 31. desember 2000 veita samkvæmt réttindatöflum.

Grunnréttindi sjóðfélaga samkvæmt framansögðu skulu umreiknuð til réttinda samkvæmt greinum 6.1-6.10 með þeim hætti að ellilífeyrisréttindi við 65 ára aldur samkvæmt ákvæðum greinar 6.10 um flýtingu á töku lífeyris verði jöfn þeim ellilífeyrisréttindum sem sjóðfélaginn átti þann 31. desember 2000.

19.3 Þann 31. desember 2000 skulu grunnréttindi sjóðfélaga samkvæmt grein 19.2, sem ekki ná tilteknu lágmarki af þeim réttindum sem full verðtrygging iðgjalda hefði veitt, aukin eftir ákvæðum greinar þessarar.

Reynist grunnréttindi sjóðfélaga lægri en 80% af þeim réttindum, sem iðgjöld sjóðfélagans sem greidd hafa verið til sjóðsins fyrir árslok 2000 hefðu veitt samkvæmt réttindatöflum sjóðsins í grein 6.10, skulu grunnréttindi sjóðfélaga aukin svo að því marki verði náð.

Fyrir hvern sjóðfélaga sem undir þessi ákvæði fellur er fundið það eingreiðsluiðgjald samkvæmt töflu IV í grein 6.10 sem þarf til að ná 80% markinu og skal sú fjárhæð skráð sem réttindafærsla viðkomandi sjóðfélaga þann 31. desember 2000.

19.4 Til viðbótar grunnréttindum, sem ákveðin hafa verið samkvæmt greinum 19.2 og 19.3, bætast lífeyrisréttindi sem sjóðfélögum hafa verið ákvörðuð með úthlutun hagnaðar samkvæmt reglum sjóðsins fram til ársloka 2000. Lífeyrisréttindi vegna hagnaðar, sem útdeilt var fyrir árslok 1998 samkvæmt (þágildandi) grein 6.10, skulu umreiknuð þann 31. desember 2000 í samræmi við ákvæði greinar 19.2.

19.5 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 1. desember 2005 skulu lækkuð um 5%.

19.6 Þann 1. júlí 2007 skulu grunnréttindi sjóðfélaga samkvæmt greinum 19.2 og 19.3, sem ekki náðu tilteknu lágmarki 31. desember 2000 af þeim réttindum sem full verðtrygging iðgjalda hefði veitt, aukin eftir ákvæðum greinar þessarar.

Reynist þessi grunnréttindi sjóðfélaga lægri en 90% af þeim réttindum, sem iðgjöld sjóðfélagans sem greidd hafa verið til sjóðsins fyrir árslok 2000 hefðu veitt samvæmt réttindatöflum sjóðsins í grein 6.10, skulu þau aukin sem hér segir:

Fyrir hvern sjóðfélaga, sem undir þessi ákvæði fellur, er fundið það eingreiðslugjald samkvæmt töflu IV í grein 6.10 sem í gildi var í árslok 2000 sem þarf til að ná 90% markinu m.v. 31. des. 2000. Skal sú fjárhæð, verðbætt til 1. júlí 2007 en síðan lækkuð um 5%, sbr. grein 19.5, skráð sem réttindafærsla viðkomandi sjóðfélaga sem taki gildi þann 1. júlí 2007.

19.7 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 1. september 2009 skulu lækkuð um 10%.

19.8 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 1. júlí 2010 skulu lækkuð um 10%.

19.9 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 1.janúar 2011 skulu lækkuð um 5%.

19.10 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 1. janúar 2012 skulu lækkuð um 5%.

19.11 Áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega miðað við 31.12.2011 skulu lækkuð um 6% þann 1.10.2012.

19.12 Áunnin réttindi sjóðfélaga miðað við 31.12.2012 og lífeyrisgreiðslur skulu lækkuð um 5,5% frá fyrsta mánaðardegi næsta mánaðar eftir staðfestingu hlutaðeigandi ráðuneytis á samþykktum þessum.

19.13 Þrátt fyrir ákvæði gr. 11.3 um eftirágreiðslu lífeyris skal gildistaka þess ákvæðis engin áhrif hafa á lífeyrisgreiðslur til þeirra sem hafið hafa töku lífeyris við gildistöku samþykkta þessara.

20. gr. Séreignardeild

20.1 Lífsverk lífeyrissjóður starfrækir séreignardeild sem tekur við iðgjöldum umfram 10% af iðgjaldsstofni og iðgjöldum til viðbótartryggingarverndar og séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 129/1997. Stjórn lífeyrissjóðsins fer með stjórn séreignardeildarinnar.

20.2 Af iðgjaldsstofni sjóðfélaga skv. 4. gr. skulu 10% renna til samtryggingardeildar en það sem umfram er til séreignardeildar án sérstakrar umsóknar þar um enda hafi sjóðfélaginn ekki óskað þess skriflega að stærri hluti eða allt iðgjald hans gangi til samtryggingardeildar eða tilgreindrar séreignardeildar. Þeir sem vilja standa að viðbótarlífeyrissparnaði og greiða til séreignardeildarinnar umfram þetta skulu undirrita samning þess efnis og senda hann til sjóðsins. Felst í samningnum yfirlýsing um að þeir vilji hlíta samþykktum Lífsverks lífeyrissjóðs. Hver sá sem greiðir iðgjald til séreignardeildarinnar verður rétthafi í henni.

20.3 Iðgjöld sem greidd eru til séreignardeildarinnar skulu vera séreign þess rétthafa er greiðir og tilgreind á sérstökum reikningi hans.  Rétthafi nýtur hlutdeildar í afkomu sjóðsins að tiltölu m.v. eignarhlut hans í viðkomandi séreignarleið.

20.4 Varðveisla og ávöxtun iðgjalda séreignardeildarinnar skal vera fjárhagslega aðskilin frá samtryggingardeildinni. Varðveislu og ávöxtun séreignar skv. gr. 20.2 skal afmarka sérstaklega innan sparnaðarleiða séreignardeildarinnar. Stjórn sjóðsins mótar sér fjárfestingarstefnu fyrir séreignardeildina í samræmi við lög nr. 129/1997. Stjórn sjóðsins er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka sparnaðarleið séreignardeildarinnar.

20.5 Ávöxtun hvers reikningsárs skal reiknuð út í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða.

20.6 Hefja má úttekt á innstæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til séreignardeildarinnar, þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum skv. greinum 20.7, 20.8 og 20.9.

20.7 Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum í einu lagi eða með jöfnum mánaðarlegum greiðslum til þess  tíma sem rétthafi óskar.

20.8 Verði rétthafi öryrki og orkutapið, sem hann verður fyrir er 100%, á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með föstum mánaðarlegum greiðslum á sjö árum. Ef örorkuprósentan er lægri en 100% lækkar mánaðarleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

Heimilt er að hafa styttri útborgunartíma eða greiða lífeyrissparnað  ásamt vöxtum með eingreiðslu þegar um lægri inneign en 500.000 kr. er að ræða. Upphæðin skal breytast árlega í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

20.9 Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Heimilt er  að greiða hlut erfingja hvort heldur sem er með eingreiðslu eða jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2 .málslið 2. mgr. 8.gr. laga nr. 129/1997.

20.10 Með jöfnum mánaðarlegum greiðslum í greinum 20.7, 20.8 og 20.9 er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðslumánaða þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta af innstæðunni að meðtöldum vöxtum sem samsvarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.

20.11 Rekstur séreignardeildarinnar er fjáhagslega aðskilinn rekstri samtryggingardeildar sjóðsins. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deilda sjóðsins.

20.12 Samningi er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningur fellur úr gildi ef rétthafi hættir störfum, sem er forsenda fyrir greiðslu hans til sjóðsins, nema hann óski þess að halda áfram að greiða til séreignardeildar. Uppsögn samnings um séreignarsparnað eða viðbótartryggingarvernd veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Rétthafa er heimilt að flytja inneign sína eða réttindi sín, að undangenginni uppsögn, milli vörsluaðila skv. 3 mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, gegn greiðslu kostnaðar.

20.13 Um heimild til endurgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 12. gr.

20.14 Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt  samningi um viðbótartryggingavernd eða lífeyrisréttindi í séreign. Þó er heimilt að gera samkomulag skv. 1.-3 . tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skiptingu réttindanna milli rétthafa og maka hans.

21. gr. Tilgreind séreignardeild

21.1 Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldsstofni skv. 4. gr. í tilgreinda séreignardeild sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir því í kjara- eða ráðningarsamningi. Stjórn lífeyrissjóðsins fer með stjórn tilgreindu séreignardeildarinnar.

21.2 Þeir sem óska eftir aðild að tilgreindri séreignardeild skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur og í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt um að þeir óski þess að láta af greiðslum til tilgreindrar séreignardeildar.

21.3 Iðgjöld sem greidd eru til tilgreindu séreignardeildarinnar skulu vera séreign þess rétthafa er greiðir og tilgreind á sérstökum reikningi hans.  Rétthafi nýtur hlutdeildar í afkomu sjóðsins að tiltölu m.v. eignarhlut hans í viðkomandi séreignarleið.

21.4 Varðveisla og ávöxtun tilgreindrar séreignar skal vera fjáhagslega aðskilin frá samtryggingardeildinni og skal afmarka sérstaklega innan sparnaðarleiða séreignardeildarinnar.

21.5 Heimilt er rétthafa að hefja úttekt tilgreindrar séreignar við 62 ára aldur og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef inneign er lægri en 500.000 kr. Upphæðin skal breytast árlega í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

21.6 Verði rétthafi öryrki og orkutapið, sem hann verður fyrir er 100%, á hann rétt á að fá tilgreindan séreignarsparnað og vexti greidda út með föstum mánaðarlegum greiðslum á sjö árum. Ef örorkuprósentan er lægri en 100% lækkar mánaðarleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

Heimilt er að hafa styttri útborgunartíma eða greiða tilgreindan séreignarsparnað  ásamt vöxtum með eingreiðslu þegar um lægri inneign en 500.000 kr. er að ræða. Upphæðin skal breytast árlega í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

21.7 Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Heimilt er  að greiða hlut erfingja hvort heldur sem er með eingreiðslu eða jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2 .málslið 2. mgr. 8.gr. laga nr. 129/1997.

21.8 Með jöfnum mánaðarlegum greiðslum í greinum 21.6 og 21.7 er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðslumánaða þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta af innstæðunni að meðtöldum vöxtum sem samsvarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.

21.9 Rekstur tilgreindu séreignardeildarinnar er fjáhagslega aðskilinn rekstri samtryggingardeildar sjóðsins. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deilda sjóðsins.

21.10 Samningi er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningur fellur úr gildi ef rétthafi hættir störfum, sem er forsenda fyrir greiðslu hans til sjóðsins, nema hann óski þess að halda áfram að greiða til tilgreindu séreignardeildarinnar. Uppsögn samnings um tilgreindan séreignarsparnað veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Rétthafa er heimilt að flytja inneign sína eða réttindi sín, að undangenginni uppsögn, milli vörsluaðila skv. 3 mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, gegn greiðslu kostnaðar.

21.11 Um heimild til endurgreiðslu tilgreinds séreignarsparnaðar til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 12. gr.

21.12 Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum í tilgreindri séreignardeild. Þó er heimilt að gera samkomulag skv. 1.-3 . tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skiptingu réttindanna milli rétthafa og maka hans.

22. gr. Breytingar á samþykktum

22.1 Til breytinga á samþykktum þessum þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi eða samþykki með einföldum meirihluta á tveimur aðalfundum í röð.

22.2 Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum þessum án þess að bera þær undir aðalfund ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða. Stjórnin skal gera sjóðfélögum grein fyrir breytingunum á næsta aðalfundi á eftir.

23. gr. Gildistaka

23.1 Samþykktir þessar gilda frá fyrsta mánaðardegi næsta mánaðar eftir staðfestingu hlutaðeigandi ráðuneytis.

Staðfest af Fjármála- og efnahagsráðuneytinu 6. maí 2024.