Viðbótarlífeyrissparnaður og Leiðréttingin

21.5.2014

Hægt að nýta skattfrjálst til greiðslu inná húsnæðislán eða kaupa á húsnæði

Alþingi samþykkti lög þann 16. maí s.l. um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.  Gert er ráð fyrir að hægt verði að sækja um þessa ráðstöfun í lok maí í gegnum leiðrétting.is á vef Ríkisskattstjóra. Þar koma einnig fram upplýsingar um fyrirhugaða leiðréttingu en lögin má sjá hér.

Við hvetjum alla sem tök hafa á til þess að nýta sér þetta hagkvæma sparnaðarform. Umsókn um viðbótarlífeyrissparnað er að finna hér.

Í lögunum kemur fram að einstaklingar geti nýtt greidd iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst allt að   kr.1.500.000,- yfir þriggja ára tímabil til lækkunar á höfuðstól íbúðarhúsnæðisláns.  Iðgjöldin þurfa að hafa verið greidd á tímabilinu 1.7.2014-30.6.2017.  Greiðslur inná lán verða framkvæmdar að lágmarki 4x á ári.  Lántaki velur það húsnæðislán sem greiða á inná.

Hjón og sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði samsköttunar geta nýtt greidd iðgjöld skattfrjálst yfir sama tímabil allt að kr. 2.250.000,-.

Umsókn vegna lækkunar á höfuðstól húsnæðisláns gildir um iðgjöld sem greidd eru eftir að umsókn berst, þó getur umsókn gilt frá 1. júlí 2014 ef hún berst fyrir 1. september sama ár. Nánari upplýsingar má sjá í lögunum hér.

Rétthöfum séreignarsparnaðar er einnig heimilt að taka út viðbótariðgjald sem greitt hefur verið á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 og nýta til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þó eigi síðar en 30. júní 2019. Skilyrði er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt. Nánari upplýsingar má sjá í lögunum.  Ráðherra getur sett reglugerð um nánari framkvæmd aðgerðarinnar.