Góð afkoma og vöxtur Lífsverks á árinu 2015

4.4.2016

Ávöxtun Lífsverks var góð á árinu 2015 þegar tekið er mið af áhættustigi fjárfestingarleiða sjóðsins og fjárfestingarmöguleikum á markaði. Allar leiðirnar skiluðu jákvæðri nafn- og raunávöxtun á árinu.

Nafnávöxtun samtryggingardeildar var 10,4% og raunávöxtun 8,2%. Hrein raunávöxtun, þegar kostnaður við rekstur sjóðsins hefur verið dreginn frá, er 8,0%. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða séreignardeildar var á bilinu 4,5% til 14,0%.

Sjóðurinn stækkaði um 15,1% á árinu og námu heildareignir samtryggingar- og séreignardeildar 66,3 milljörðum kr. Lífsverk hefur vaxið mest allra lífeyrissjóða frá árinu 2014. Í árslok 2015 var hrein eign samtryggingardeildar til greiðslu lífeyris 57,2 milljarðar kr. og 9,1 milljarðar í séreignardeild.

Samanlögð iðgjöld ársins 2015 námu 3.559 m.kr. og námu samanlagðar lífeyrisgreiðslur 760 m.kr. Hlutfall lífeyris af samanlögðum iðgjöldum var 21,4%. Þetta er lágt hlutfall í samanburði við aðra lífeyrissjóði og skýrir góðan vöxt sjóðsins undanfarin ár, auk þess sem afkoma hefur verið með ágætum.

Að meðaltali greiddu 2.612 sjóðfélagar iðgjöld til samtryggingardeildar í hverjum mánuði og er það aukning frá fyrra ári. Í heildina eiga um 4.300 sjóðfélagar réttindi í sjóðnum. Fjölgun varð einnig meðal rétthafa í séreignardeild.

Samkvæmt tryggingafræðilegri athugun í árslok 2015 voru heildareignir sjóðsins 2,6% umfram heildarskuldbindingar samanborið við 0,2% í lok fyrra árs. Staða áfallinna skuldbindinga nam 4,1% en staða framtíðarskuldbindinga var 0,4%. Góð raunávöxtun bætti áfallna stöðu sjóðsins verulega. Hins vegar lækkaði staða framtíðarskuldbindinga lítillega milli ára en með nýjum réttindatöflum sem tóku gildi 1.1.2015 hækkaði réttindaávinningur fyrir greitt iðgjald í framtíðinni.

Í séreignardeild var nafnávöxtun Lífsverks 1 14,0% og raunávöxtun var 11,8%. Hrein eign í árslok var 1.094 m.kr. og jókst um 26,9% milli ára. Nafnávöxtun Lífsverks 2 var 8,5% og raunávöxtun 6,3%. Hrein eign í árslok nam 7.871 m.kr. og hækkaði um 15,7% milli ára. Nafnávöxtun Lífsverks 3 var 4,5% og raunávöxtun 2,5%. Hrein eign í árslok var 172 m.kr. og hafði hækkað um 50,9% frá árslokum 2014.

Nánari upplýsingar í ársskýrslu sjóðsins hér