Ábyrgar fjárfestingar

Lífsverk hefur gerst aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment - UN PRI). Með aðild sinni skuldbindur Lífsverk sig til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið við ákvarðanir um fjárfestingar, auk góðra stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í.

Lífsverk hefur gerst aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment - UN PRI). Með aðild sinni skuldbindur Lífsverk sig til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið við ákvarðanir um fjárfestingar, auk góðra stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í.  Aðild Lífsverks er liður í aukinni áherslu sjóðsins á þessi málefni, sem skipa sífellt mikilvægari sess í augum fjárfesta. Þá er Lífsverk einn af stofnaðilum IcelandSIF, sem er íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Lífsverk mun leitast við að taka í auknum mæli þátt í fjárfestingum sem hafa sterka stefnu í samfélagslegri ábyrgð. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka gegnsæi.

Stjórn Lífsverks hefur mótað hluthafastefnu sem er aðgengileg hér á vefsvæði sjóðsins.

Stefna Lífsverks um ábyrgar fjárfestingar:

Samþykkt á stjórnarfundi í janúar 2020

1. Tilgangur

Ábyrgar fjárfestingar snúast um það að beita öðrum aðferðum við fjárfestingar en einungis þeim sem hámarka fjárhagslegan ávinning. Við ábyrgar fjárfestingar er einnig tekið tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (skammstafað UFS eða ESG[1] á ensku) við fjárfestingarákvarðanir. Lífsverk telur að með þessari aðferðafræði megi draga úr áhættu og auka ávöxtun til lengri tíma.

Árið 2016 var 36 gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða breytt á þann veg að hver lífeyrissjóður skyldi setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Lögin tóku gildi 1. júlí 2017. Með þessari stefnu er Lífsverk að uppfylla þetta ákvæði, en sömuleiðis að lýsa yfir áhuga og metnaði sjóðsins sem ábyrgur fjárfestir og útlista hvernig Lífsverk sýnir þann vilja sinn í verki.

Ábyrgar fjárfestingar auka velferð samfélags í heild sinni og þar ætlar Lífsverk sér að vera í fararbroddi.

2. Markmið og áherslur

Markmið Lífsverks er að taka á móti lífeyrisiðgjöldum, ávaxta þau á ábyrgan hátt og stuðla þannig að lífsgæðum sjóðfélaga við töku lífeyris. Það er í höndum stjórnar Lífsverks að leggja árlega fram fjárfestingarstefnu og gera grein fyrir hvernig sjóðurinn hyggst ná þessu markmiði, bæði með tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Samhliða fjárfestingarstefnunni setur stjórn fram þessa stefnu í ábyrgum fjárfestingum. Það er mat stjórnar að fjárhagsleg og ábyrg markmið fari saman. Þau samtvinnist og stuðli í sameiningu að bættum hag sjóðfélaga.

Til að ná þessum ábyrgu markmiðum hefur Lífsverk undirritað samkomulag við UN PRI (e. United Nations Principles for Responsible Investments) og þar með samþykkt að fylgja eftir sex meginreglum samtakanna um að:

  1. Við munum taka mið af UFS við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku.
  2. Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki.
  3. Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í.
  4. Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingastarfsemi.
  5. Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna.
  6. Við skilum skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna.

Þessar meginreglur leggja grunn að aðferðafræði Lífsverks við að samþætta UFS þætti í ákvarðanaferli við fjárfestingar.

Fræðsla um UFS er ekki síður mikilvæg og markmið Lífverks er að vera þátttakandi í þeirri vegferð. Lífsverk er meðal þeirra aðila sem stofnuðu IcelandSIF, sem eru íslensk samtök sem hafa þann tilgang að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Starfsmenn Lífsverks eru virkir í því starfi sem þar á sér stað.

Lífsverk hlustar á skoðanir sjóðfélaga um ábyrgar fjárfestingar og hvetur þá til að taka þátt í að bæta sjóðinn þeirra. Heimasíða sjóðsins verður uppfærð með það í huga að einfalda sjóðfélögum að koma með ábendingar, hugmyndir og taka þátt í þessari vegferð.

3. Sjálfbærni

Sameinuðu þjóðirnar settu sér árið 2015 hin svokölluðu heimsmarkmið (e. Sustainable Development Goals). Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa innleitt markmiðin, þar á meðan Ísland. Markmiðin eru ákall um aðgerðir sem bæta lífsskilyrði á jörðinni.

UN-SDG

Lífsverk ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í því að taka þátt í að stuðla að sjálfbærni og bættum lífsskilyrðum fyrir árið 2030. Við teljum að sjóðurinn sé í aðstöðu til þess að hafa áhrif á flest þessara markmiða og sérstaklega í markmiðum 5, 7, 8, 9 og 13. Þar af leiðandi tekur aðferðafræði Lífsverks við fjárfestingaákvarðanir sér í lagi mið af þeim.

Á árinu 2020 verður fókus sjóðsins í ábyrgum fjárfestingum á markmið 8 og 9. Markmið 8 snýr að atvinnutækifærum og hagvexti. Við teljum að sjálfbær hagvöxtur krefjist þess að samfélög skapi skilyrði sem gera fólki kleift að fá góð störf. Viðvarandi hagvöxtur getur keyrt framfarir, búið til störf fyrir alla og bætt lífskjör. Með því að fjárfesta í verkefnum sem vinna að þessu markmiði getur sjóðurinn tekið þátt í að byggja upp innviði, búa til fleiri störf og passa að þau fyrirtæki sem fjárfest er í bjóði starfsmönnum sínum jöfn tækifæri og farið að vinnulöggjöf um réttindi starfsmanna. Markmið 9 snýr að því að byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og stuðla að nýsköpun. Þessi tvö markmið haldast því í hendur.

4. Aðferðafræði Lífsverks við að samþætta UFS þætti í fjárfestingarákvarðanir

Skipta má aðferðafræði Lífsverks í fernt:

4.1. Fjárfestingaferli

4.2. Eftirfylgni

4.3. Skýrslugerð og gegnsæi

4.4. Eigendastefna

4.1 Fjárfestingaferli

Lífsverk er með ákveðnar væntingar til fyrirtækja sem fjárfest er í og þeirra sem stýra fjármunum fyrir sjóðinn, þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð. Við fjárfestingaferli nýrra fjárfestinga útilokar Lífsverk að fjárfesta í ákveðnum eignaflokkum samkvæmt útilokunarlista að neðan:

  • Framleiðendur hergagna
  • Félög sem byggja afkomu sína á framleiðslu tóbaks
  • Rekstur þar sem grundvallarmannréttindi, svo sem þrælkun, eru ekki virt
  • Starfsemi sem er óaábyrg gagnvart umhverfi

Útilokun þýðir að Lífsverk mun ekki fjárfesta beint í fyrirtækjum sem byggja starfsemi sína á þeim rekstri sem talinn er upp í listanum. Ef um er að ræða fjárfestingar í sjóðum er leitast við að fjárfesta ekki í sjóðum sem eiga eignir sem byggja starfsemi sína á þeim rekstri sem talinn er upp í listanum eða að hámarki 5% samtals í þeim flokkum sem taldir eru upp að ofan.

Lífsverk fjárfestir ekki í félögum eða útgefendum eða felur þriðja aðila að stýra fjármunum sjóðsins sem ekki eru með stefnu í samfélagslegri ábyrgð eða hyggjast ekki móta sér slíka í náinni framtíð.

Þar að auki framkvæma starfsmenn Lífsverks kostgæfnisathugun á viðkomandi fjárfestingu með hliðsjón af samfélagslegri ábyrgð og áherslum Lífsverks. Við kostgæfnisathugunina leggur Lífsverk að lágmarki til grundvallar spurningalistann í viðauka I. Spurningalistinn tekur mið af þeim heimsmarkmiðum sem Lífsverk tileinkar sér á hverjum tíma og útilokunarlista sjóðsins.

4.2 Eftirfylgni

Eignastýring Lífsverks mun fara yfir fjárfestingar og flokka þær, svo unnt sé að fylgjast nánar með þeim þáttum sem Lífsverk leggur áherslu á og einnig til að gera sjóðnum kleift að fylgjast með ávinningi sem felst í að framfylgja stefnunni. Fjárfestingum er skipt niður í þrjá flokka í kerfum Lífsverks, A, B og C. Að neðan má sjá skilgreiningu á hverjum flokki fyrir sig:

 

Tafla-ABC-flokkun-islenska

Fjárfestingar sjóðsins eru flokkaðar eftir tíðni í hverjum flokki. Markmið sjóðsins er að bæta hlutfall eigna sem falla undir flokk A ár frá ári og að yfir 50% eigna sjóðsins endurspegli nálgun Lífsverks í ábyrgum fjárfestingum innan tveggja ára.

Markmið sjóðsins á árinu 2020 er að vera með betri einkunn en MSCI vísitalan í UFS þáttum í þeim hluta safnsins sem unnt er að mæla. Lífsverk mun beita sér fyrir því að þau fyrirtæki sem ekki er unnt að mæla UFS þætti hjá vinni að því.

4.3 Skýrslugerð og gegnsæi

Sem meðlimur í UN PRI skilar Lífsverk skýrslu í samræmi við meginreglu UN PRI nr 6 árlega. Árið 2019 var fyrsta árið sem Lífsverk skilaði skýrslunni og var niðurstaðan ekki fullnægjandi. Markmið Lífsverks í skýrslunni árið 2020 er bæta úr þeim þáttum sem athugasemdir voru gerðar við og ná hærri einkunn. Það er meðal annars hlutverk þessarar stefnu Lífsverks. Ábyrgðamaður fyrir skýrslu UN PRI er markaðs- og kynningastjóri Lífsverks.

Lífsverk mun í lok hvers árs skila skýrslu til stjórnar um hvernig markmið sjóðsins hafa náðst og mun hún í kjölfarið verða birt á heimasíðu sjóðsins.

Lífsverk heldur atburðalista yfir möguleg frávik sem verða frá stefnu Lífsverks, hver frávikin voru og hvernig Lífsverk brást við.

Eignastýring vinnur að markmiðum sjóðsins á ábyrgum fjárfestingum í samvinnu við framkvæmdastjóra og markaðs- og kynningastjóra.

4.4 Eigendastefna

Markmið Lífsverks er einnig að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka gegnsæi. Stjórn Lífsverks hefur mótað hluthafastefnu sem aðgengileg er á heimasíðu sjóðsins.

5. Markmið um ábyrgð í rekstri og umhverfi

Markmið Lífsverks inn á við varðar rekstur sjóðsins, starfsmannastefnu og nánasta umhverfi. Lífsverk leggur áherslu á umhverfismál í rekstri sjóðsins. Rusl á vinnustað er flokkað og því fargað á umhverfisvænan hátt. Pappír er afþakkaður í póstsendingum þar sem það er í boði og ársreikningur Lífsverks er birtur á rafrænu formi á vefsvæði sjóðsins. Lífsverk afþakkar efni á pappírsformi fyrir kynningarfundi og er mótaðilum bent á að koma með kynningar á rafrænu formi. Markmið Lífsverks er að lágmarka sóun á vinnustað. Hvatt er til vistvænna innkaupa á aðfögnum og að dregið verði úr notkun einnota umbúða.

Á árinu 2020 mun Lífsverk kolefnisjafna lengri ferðalög starfsmanna á vegum sjóðsins.

Lífsverk hvetur starfsfólk til heilsueflingar með því að bjóða uppá líkamsræktarstyrki og árlegar heilsufarsmælingar. Lífsverk hvetur einnig starfsfólk til að láta gott af sér leiða til samfélagsins.

6. Upplýsingagjöf og endurskoðun stefnunnar

Stjórn Lífsverks mun árlega fara yfir stefnu um ábyrgar fjárfestingar og taka hana til endurskoðunar. Samhliða því er stefnan uppfærð á heimasíðu sjóðsins. Forstöðumaður eignastýringar ber ábyrgð á endurskoðun stefnunnar. Framkvæmdastjóri sér til þess að starfsfólk Lífsverks sé upplýst um stefnuna og geti tileinkað sér hana við dagleg störf.

Stefnan leggur línur að nýrri aðferðafræði Lífsverks við fjárfestingar og því er mikilvægt að hún sé þýdd á ensku til að hægt sé að koma henni á framfæri til víðari hóps. Samhliða endurskoðun stefnunar skal hún því einnig birt á ensku á heimasíðu sjóðsins.

Stefnan er samþykkt á stjórnarfundi Lífsverks 22. janúar 2020.

 

Viðauki I

Ábyrgar fjárfestingar - kostgæfnisathugun

 

Stjórnarhættir

1. Hefur fyrirtækið sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgð og/eða ábyrgar fjárfestingar? Ef já, hvernig er henni fylgt eftir?

2. Hefur stjórn fyrirtækisins sett sér stefnu varðandi góða stjórnarhætti?

3. Situr forstjóri eða framkvæmdastjóri í stjórn fyrirtækisins?

4. Hvert er kyn forstjóra?

5. Hvert er kynjahlutfall stjórnarmanna og stjórnenda?

6. Setur fyrirtækið sér stefnu um hámarks ráðningartíma endurskoðenda?

7. Hefur fyrirtækið eða stjórn sett sér siðareglur, ef já, eru þær aðgengilegar á heimsíðu fyrirtækisins?

 

Umhverfisþættir

1. Hefur fyrirtækið sett sér umhverfisstefnu? Ef já, hvernig er henni framfylgt?

2. Flokkar fyrirtækið sorp?

3. Setur fyrirtækið sér stefnu um lágmörkun orkunotkunar?

4. Mælir fyrirtækið umhverfisspor í formi koldíoxíðs, rafmagns- eða vatnsnotkunar? Ef svo hver eru þessi gildi?

5. Eru einhver umbótaverkefni í gangi eða fullkláruð hjá fyrirtækinu sem snúa að umhverfismálum?

Félagslegir þættir

1. Hver er starfsmannavelta í fyrirtækinu?

2. Hvert er kynjahlutfall starfsmanna?

3. Hefur fyrirtækið fengið jafnlaunavottun eða sett sér jafnlaunastefnu?

4. Hvert er hlutfall lausráðinna starfsmanna?

5. Hvert er hlutfall hæstu (með árangurstengdum greiðslum) og lægstu launa hjá fyrirtækinu?

6. Hefur fyrirtækið sett sér öryggisstefnu eða mælt slysatíðni?

Byggir fyrirtækið starfsemi sína á þeim rekstri sem talinn er upp í útilokunarlista Lífsverks? Ef svo, að hversu miklu leyti?

Spurningarnar eiga við viðtakanda sem og dótturfélög hans.

 

 


[1] Environmental, social and corporate governance.