Áhættustefna
Áhættustefna sjóðsins var sett með hliðsjón af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu samtryggingardeilda lífeyrissjóða.
Í daglegri starfsemi sjóðsins eru margir þættir sem geta haft áhrif á rekstur hans og afkomu. Stjórn Lífsverks hefur
sett áhættustefnu fyrir sjóðinn í samræmi við reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með starfsemi lífeyrissjóða.
Stefnan lýsir umgjörð áhættustýringar sjóðsins, skilgreinir þá áhættuþætti sem mikilvægastir eru fyrir sjóðinn og
setur fram áhættuvilja og áhættuþol stjórnar. Áhættustefnan skilgreinir jafnframt hvernig ábyrgð á áhættustýringu
sjóðsins skiptist milli stjórnar, starfssviða og starfsmanna sjóðsins. Stjórn ber ábyrgð á mótun og setningu
stefnunnar og framkvæmdastjóri ber ábyrgð á framkvæmd stefnunnar. Breytingar á henni eru lagðar fyrir stjórn
sjóðsins til samþykktar. Áhættustefnan nær yfir starfsemi sjóðsins, en ekki félaga og/eða fyrirtækja í eigu sjóðsins.
Áhættustefna sjóðsins er yfirfarin og uppfærð árlega.
Áhætta er skilgreind sem hætta á atburði sem dregur úr líkunum á því að lífeyrissjóðurinn nái markmiðum sínum,
en meginmarkmið lífeyrissjóðsins er að greiða lífeyri samkvæmt samþykktum.
Áhætta samtryggingardeildar er því öll þau atvik er geta marktækt haft áhrif á getu lífeyrissjóðsins til að standa við
skuldbindingar sínar, þ.e. að tryggingafræðileg staða verði neikvæð til skemmri eða lengri tíma, samanber 2. mgr.
39. laga nr. 129/1997. Áhættan nær bæði til atvika er lúta að eignum og skuldbindingum.
Áhætta séreignarleiða er því öll þau atvik sem auka marktækt líkurnar á því að eignir/réttindi rétthafa skerðist til
skemmri eða lengri tíma.
Áhættu samtryggingardeildar sjóðsins er skipt í markaðsáhættu, lausafjáráhættu, mótaðilaáhættu,
lífeyristryggingaráhættu, rekstraráhættu og áhættu vegna sjálfbærniþátta. Áhættu séreignarleiða er skipt í
markaðsáhættu, lausafjáráhættu, mótaðilaáhættu, rekstraráhættu og áhættu vegna sjálfbærniþátta.
Markaðsáhætta, lausafjáráhætta, mótaðilaáhætta og lífeyristryggingaráhætta er áhætta tengd eignum og
skuldbindingum sjóðsins (efnahagsreikningi sjóðsins). Rekstraráhætta á m.a. rætur að rekja til áhættu tengdri
upplýsingakerfum sjóðsins, framkvæmd viðskipta, ófullnægjandi verkferlum eða vanhæfi starfsmanna m.t.t.
þekkingar, reynslu eða heilinda.
Áhættustefnu sjóðsins má finna hér: Áhættustefna