Sjóðfélagalýðræði

Allir stjórnarmenn Lífsverks eru sjóðfélagar kosnir af sjóðfélögum sjálfum. Lífsverk var fyrstur lífeyrissjóða á Íslandi til að taka upp rafrænt stjórnarkjör. Með þessu er tryggt að stjórnarmenn séu sjálfstæðir í sínum störfum eins og lög gera ráð fyrir. Ákvarðanir stjórnar eru teknar í umboði sjóðfélaga sjálfra, með hagsmuni þeirra einna í huga.

Hagur sjóðfélaga að leiðarljósi

Virkt sjóðfélagalýðræði er þegar stjórn sjóðsins er sjálfstæð, stjórnarmenn eru ekki hagsmunaaðilar ákveðins hóps eða skoðana og ákvarðanir stjórnar teknar með hag sjóðfélaga að leiðarljósi.

Stjórnarkjör

Stjórn Lífsverks skipa fimm sjóðfélagar og eru þeir kjörnir með rafrænni kosningu til þriggja ára í senn. Jafnmargir varamenn eru kjörnir á aðalfundi. Þau ár sem tveir stjórnarmenn eru kosnir skal kjósa eina konu og einn karl. Þegar kjósa skal einn stjórnar- og einn varastjórnarmann þá ræður kosning óháð kyni. Hlutfall hvors kyns í stjórn sjóðsins skal aldrei verða verða lægra en 40%. Nánar er fjallað um stjórnarkjör í 15. gr. samþykkta sjóðsins. Stjórn skipar þriggja manna kjörnefnd sem setur reglur um framkvæmd kosninga og eru reglurnar staðfestar af stjórn.

Góðir stjórnarhættir og jöfn atkvæði

Í lífeyrissjóði er mikilvægt að virða og viðhafa góða stjórnarhætti, þar sem allir sjóðfélagar hafa jafnan kosningarétt og kjósa sjálfir stjórn úr sínum röðum með rafrænum kosningum. Í síðustu kosningum til stjórnarkjörs greiddu um 19% virkra sjóðfélaga atkvæði. Með rafrænum kosningum fæst mun almennari þátttaka sjóðfélaga en ef kosið yrði á aðalfundi og góð reynsla er af þessu fyrirkomulagi. Þá er það einnig mikilvægt að hvert atkvæði vegi jafnt, þ.e. að atkvæði þeirra sem ungir eru og eiga eftir að greiða til sjóðsins um langa hríð hafi sömu þýðingu og þeirra eldri, enda hagsmunir þeirra yngri ekki síðri um að vel takist til með stjórn sjóðsins til framtíðar.