Framboð til stjórnar
Sigþór Sigurðsson
Ég heiti Sigþór Sigurðsson og hef ákveðið að gefa kost á mér til stjórnarsetu í Lífeyrissjóði Verkfræðinga. Ég er 46 ára gamall vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hef undanfarin 12 ár verið framkvæmdastjóri hjá malbikunar- og verktakafyrirtækinu Hlaðbæ-Colas hf og sit jafnframt í stjórn félagsins. Fyrirtækið er hluti af alþjóðlegri samsteypu Colas fyrirtækja sem starfa um allan heim. Ég er ennfremur formaður Mannvirkis, félag bygginga- og jarðvinnuverktaka innan Samtaka Iðnaðarins og sit í ráðgjafaráði SI. Ég hef undanfarin 3 ár setið í sóknarnefnd Háteigskirkju. Meðfram því sinni ég félagsmálum hjá Knattspyrnufélaginu Val.
Sambýliskona er Margrét Lilja Guðmundsdóttir félagsfræðingur og við eigum tvö börn 16 og 9 ára.
Ég hef verið sjóðsfélagi í yfir 20 ár.
Ég er í eðli mínu íhaldssamur og varkár þegar kemur að rekstri. Rekstur fyrirtækja og félaga undir minni stjórn hafa verið farsæl og þrátt fyrir áföll og erfiða tíma hefur tekist að halda rekstrinum í jafnvægi og þoka málum áfram til betri vegar. Nýsköpun, gæði og aðhald hafa verið leiðarljós í öllum mínum verkum. Ég hef umtalsverða reynslu af alþjóðlegum rekstri sem framkvæmdastjóri í alþjóðlegu fyrirtæki og með þátttöku í starfi framkvæmdastjóra Colas samsteypunnar.
Ég vil innan stjórnar sjóðsins beita mér fyrir aðhaldi og hagræðingu á öllum sviðum. Sjóðurinn er lítill og hefur um tvennt að velja á næstu árum að mínu mati. Að stækka umtalsvert með fjölgun sjóðsfélaga eða leita allra leiða til hagræðingar með samvinnu við aðra sjóði eða útvistun verkefna.
Lífeyrissjóður verkfræðinga á að vera fyrsti valkostur nýútskrifaðra háskólamanna og kvenna og verður sem slíkur að kynna sínar áherslur meðal stúdenta og ungs fólks. Jafnframt verður hann að marka sér sérstöðu og sækja þannig breiðan hóp af vel menntuðum sjóðsfélögum.
Það er von mín kæri sjóðsfélagi að þú veitir mér stuðning þinn til stjórnarsetu næstu þrjú árin.