Lífsverk tók þátt í útboði Fly Play hf.

Eftir ítarlega skoðun hefur eignastýring Lífsverks ákveðið að taka þátt í hlutafjárútboði Fly Play hf. fyrir 325 milljónir króna. Hluti Lífsverk er um 0,3% af eignasafni samtryggingarhluta lífeyrissjóðsins.

13.4.2021

Að mati eignastýringar er um að ræða áhugaverðan fjárfestingarkost sem kemur til með að auka eignadreifingu í safni Lífsverks. Stefna sjóðsins er óbreytt hvað það varðar að leggja áherslu á traustar fjárfestingar og áhættudreifingu. Til stóð að safna að lágmarki um 4,5 milljörðum króna í útboðinu og náðist það markmið. Stjórnendur áforma skráningu Play á First North markaðinn í sumar.

Play hefur sett sér skýrar reglur um samfélagslega ábyrgð og samræmist fjárfestingin stefnu Lífsverks í ábyrgum fjárfestingum. Búist er við að rekstur félagsins verði umhverfisvænni en almennt gengur og gerist í flugrekstri og verður öllum farþegum boðið að kolefnisjafna flug sitt. Nýja félagið mun einnig koma til með að auka samkeppni á markaði og hafa jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og neytendur.