Ávöxtun séreignarleiða 2018

19.2.2019

Erfitt ár á erlendum mörkuðum, styrking krónunnar undir lok árs og lækkun á innlendum hlutabréfamarkaði dró úr ávöxtun Lífsverks 1 á árinu 2018, sem er áhættumesta séreignarleið sjóðsins. Nafnávöxtun leiðarinnar var 1,45% á árinu og hrein raunávöxtun neikvæð um 1,74% samanborið við 4,4% jákvæða hreina raunávöxtun árið 2017.

Lífsverk 2 skilaði 4,33% nafnávöxtun á árinu og 1,05% hreinni raunávöxtun, samanborið við 5,61% hreina raunávöxtun 2017. Fjárfestingarstefna Lífsverks 2 leggur áherslu á innlend skuldabréf en hefur heimild til að fjárfesta að hluta í innlendum og erlendum hlutabréfum.

Lífsverk 3, sem er blanda af innlánum, stuttum ríkisskuldabréfum og skuldabréfum og víxlum lánastofnana, hélt sínum hlut. Nafnávöxtun ársins var 3,92% og hrein raunávöxtun 0,65%.

Hrein-raunaxtun

Vísitölur erlendra hlutabréfamarkaða lækkuðu nánast allar á árinu. Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) mæld í Bandaríkjadal lækkaði um 10,4% , FTSE vísitalan í Bretlandi lækkaði um 12,5% og S&P500 vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 6,2%. Lækkun varð einnig á helstu hlutabréfamörkuðun á Norðurlöndum. Á innlendum markaði lækkaði hlutabréfavísitala OMXI8GI um 3,1% en ágæt ávöxtun var hins vegar á skuldabréfamarkaði. Þannig hækkaði heildarvísitala ríkisskuldabréfa Gamma um 6,4%.

Á fyrsta mánuði ársins 2019 hafa innlendir og erlendir hlutabréfamarkaðir tekið vel við sér og hefur ávöxtun allra séreignarleiða Lífsverks í janúar verið mjög góð.