Niðurstaða aðalfundar 2025
Reynir Leví nýr í stjórn Lífsverks
Á aðalfundi Lífsverks í gær tilkynnti Elísabet Árnadóttir, í kjörnefnd sjóðsins, um úrslit í rafrænum kosningum til stjórnar. Kjósa átti um eitt sæti í aðalstjórn og voru fjórir í framboði. Alls greiddu 430 atkvæði, eða 12% af virkum sjóðfélögum. Úrslit kosninga urðu þau að Reynir Leví Guðmundsson hlaut 47% atkvæða, Margrét Elín Sigurðardóttir 29%, Kristján Arinbjarnar 18% og Pálmar Sveinn Ólafsson 6%. Reynir Leví tekur því sæti í aðalstjórn Lífsverks til næstu 3ja ára.
Georg Lúðvíksson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og voru honum þökkuð vel unnin störf. Í kosningum til varastjórnar bar Steinar Ísfeld Ómarsson sigurorð af Pálmari Sveini Ólafssyni og er hann því réttkjörinn í varastjórn til næstu 3ja ára. Endurskoðunarnefnd er óbreytt frá fyrra ári en hana skipa Jóhann Þór Jóhannsson, sem verið hefur formaður nefndarinnar og Thomas Möller, ásamt Margréti Arnardóttur sem skipuð er af stjórn.
Ný stjórn hefur skipt með sér verkum og verður Eva Hlín Dereksdóttir áfram stjórnarformaður og Agnar Kofoed-Hansen varaformaður. Meðstjórnendur eru Agni Ásgeirsson, Margrét Arnardóttir og Reynir Leví Guðmundsson.
Á fundinum flutti Eva Hlín, stjórnarformaður, skýrslu stjórnar, Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning sjóðsins 2024, Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur, fór yfir tryggingafræðilega stöðu og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, forstöðumaður eignastýringar, fór yfir fjárfestingarstefnu. Ávöxtun sjóðsins var góð á árinu og batnar tryggingafræðileg staða um 1,3% milli ára. Undir liðnum önnur mál upplýstu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri um viðræður Lífsverks og Almenna lífeyrissjóðsins um mögulega sameiningu sjóðanna en stjórnir sjóðanna skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis fyrir skemmstu. Fram kom að viðræður eru á frumstigi en stefnt er að því að þeim ljúki í sumar. Fram kom að beri viðræður árangur muni sjóðfélagar sjálfir ávallt kjósa um það hvort af sameiningu verði á aðalfundi eða auka-aðalfundi. Þess var óskað á fundinum að sjóðfélagar verði upplýstir um gang mála.
Ársskýrsla 2024 hefur verið birt á vefnum, þar sem er að finna ítarlegar upplýsingar um rekstur sjóðsins.