Samfélagsleg ábyrgð

Lífsverk hefur gerst aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment - UN PRI). Með aðild sinni skuldbindur Lífsverk sig til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið við ákvarðanir um fjárfestingar, auk góðra stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í.  Aðild Lífsverks er liður í aukinni áherslu sjóðsins á þessi málefni, sem skipa sífellt mikilvægari sess í augum fjárfesta. Þá er Lífsverk einn af stofnaðilum IcelandSIF, sem er íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Lífsverk mun leitast við að taka í auknum mæli þátt í fjárfestingum sem hafa sterka stefnu í samfélagslegri ábyrgð. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka gegnsæi.

Stjórn Lífsverks hefur mótað hluthafastefnu sem er aðgengileg hér á vefsvæði sjóðsins.

Stefna Lífsverks um samfélagslega ábyrgð:

Með samfélagslegri ábyrgð er átt við að sýna áhuga á og vera virk í að auka velferð samfélags í heild
sinni. Fyrir fyrirtæki felst samfélagsleg ábyrgð í að setja sér önnur markmið en einungis þau sem
hámarka fjárhagslegan ávinning.


Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða fjalla um umgjörð
lífeyrissjóða á Íslandi og hvernig þeir skuli haga fjárfestingum. Í 36. gr. þessara laga er fjallað um að
hver lífeyrissjóður skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.


Í þessari stefnu setur Lífsverk sér samfélagsleg markmið við daglegan rekstur og í fjárfestingum í
samræmi við lög og umfram lagalegar skyldur sínar. Markmið Lífsverks er að vera í fararbroddi
lífeyrissjóða á Íslandi þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð.


Markmið með ábyrgum fjárfestingum
Markmið Lífsverks er að taka á móti lífeyrisiðgjöldum, ávaxta þau á ábyrgan hátt og stuðla þannig að
lífsgæðum sjóðfélaga við töku lífeyris. Það er í höndum stjórnar Lífsverks að leggja árlega fram
fjárfestingarstefnu og gera grein fyrir hvernig sjóðurinn hyggst ná þessu markmiði, bæði með tilliti til
ávöxtunar og áhættu.


Samhliða fjárfestingarstefnunni setur stjórn fram stefnu um samfélagslega ábyrgð. Það er mat stjórnar
að fjárhagsleg og samfélagsleg markmið fari saman og þau stuðli í sameiningu að bættum hag
sjóðfélaga.


Tilgangur Lífsverks er að ávaxta lífeyri og þar af leiðandi eru fjárfestingar stór hluti af starfsemi sjóðsins.
Markmið sjóðsins er að sýna ábyrgð í fjárfestingum. Til marks um þá ábyrgð er Lífsverk aðili að PRI,
sáttmála Sameinuðu þjóðana um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Þar með hefur Lífsverk
skuldbundið sig til þess að fylgja þeim sex meginreglum sem settar eru fram af PRI um samfélagslega
ábyrgar fjárfestingar og eftirlit með þeim. Lífsverk er einnig meðal stofnaðila IcelandSIF, sem er
íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.


Grunngildi Lífsverks í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum eru;

  1. að fjárfesta ekki í framleiðendum hergagna
  2. að fjárfesta ekki í framleiðendum tóbaks
  3. að fjárfesta ekki í rekstri þar sem grundvallarmannréttindi, svo sem þrælkun, eru ekki virt og
  4. að fjárfesta ekki í starfsemi sem er óábyrg gagnvart umhverfinu


Við skoðun nýrra fjárfestingakosta Lífsverks skal óskað eftir stefnu viðkomandi í samfélagslegri ábyrgð.
Sé viðkomandi ekki með slíka stefnu og/eða fjárfestingin fer gegn grunngildum Lífsverks, tekur Lífsverk
ekki þátt í fjárfestingunni. Sé viðkomandi með stefnu í samfélagslegri ábyrgð sem samræmist
grunngildum Lífsverks að lágmarki, er tekið tillit til hennar í ákvörðun starfsmanna Lífsverks um að taka
þátt í fjárfestingunni. Við ákvörðunartöku skal almennt miða við að hlutfall sjálfbærra og samfélagslega
ábyrgra fjárfestinga af nýjum fjárfestingum sjóðsins fari vaxandi.


Lífsverk er vakandi yfir samfélagslegri ábyrgð núverandi eigna í safni og vaktar eignasafn í samræmi
við meginreglur PRI. Ef um er að ræða beinar fjárfestingar munu starfsmenn Lífsverks flokka eignir eftir
því hvort þær samræmist grunngildum Lífsverks eða ekki. Þær fjárfestingar sem ekki gera það eru
teknar til sérstakrar skoðunar með því markmiði að skipta þeim út úr eignasafni fyrir eignir sem hafa
sambærilega eiginleika en ákjósanlegri stefnu hvað varðar samfélagslega ábyrgð. Starfsmenn Lífsverks
munu upplýsa stýringaraðila um stefnu Lífsverks og óska eftir upplýsingum um undirliggjandi eignir. Ef
fjárfestingar samræmast ekki gildum Lífsverks mun Lífsverk beita sér fyrir úrbótum á þeim sviðum sem
við á. Ef ekki er hægt að koma því við mun sala á viðkomandi fjárfestingu koma til skoðunar.
Lífsverk mun leitast við að taka í auknum mæli þátt í fjárfestingum sem hafa sterka stefnu í
samfélagslegri ábyrgð.


Markmið Lífsverks er einnig að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka gagnsæi. Stjórn Lífsverks
hefur mótað hluthafastefnu sem aðgengileg er á heimasíðu sjóðsins.


Markmið um ábyrgð í rekstri og umhverfi
Markmið Lífsverks inn á við varða rekstur sjóðsins, starfsmannstefnu og nánasta umhverfis hans.
Lífsverk leggur áherslu á að vera umhverfisvænn í rekstri sjóðsins. Rusl á vinnustað er flokkað og því
fargað á umhverfisvænan hátt. Pappír er afþakkaður í póstsendingum þar sem það er í boði og
ársreikningur Lífsverks er birtur á rafrænu formi á vefsvæði sjóðsins. Lífsverk afþakkar efni á
pappírsformi fyrir kynningarfundi og er mótaðilum bent á að koma með kynningar á rafrænu formi.
Markmið Lífsverks er að lágmarka sóun á vinnustað og hvetja starfsfólk til að láta gott af sér leiða til
samfélagsins.


Stjórn Lífsverks mun árlega fara yfir stefnu um samfélagslega ábyrgð og taka hana til endurskoðunar.
Framkvæmdastjóri sér til þess að starfsfólk Lífsverks sé upplýst um stefnuna og geti tileinkað sér hana
við dagleg störf.


Þannig samþykkt á stjórnarfundi Lífsverks 22.janúar 2019.